Tollheimta og gæsla

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollheimta og gæsla

Upphaf tollheimtu á Íslandi má rekja allt til ársins 1872 þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli.  Þá annaðist bæjarfógetaembættið í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt. 

Árið 1917 voru samþykkt lög frá Alþingi sem sögðu að stofna skyldi sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavík og í apríl 1918 var fyrsti tollvörðurinn ráðinn til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var svo sett á stofn með lögum nr. 67/1928 sem tóku gildi 1. janúar 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson, Snorri Olsen og nú Sigurður Skúli Bergsson.

Í upphafi var aðstaða tollgæslunnar nær engin en um mitt ár 1920 var fyrsta tollvarðstofan tekin í notkun í hafnarpakkhúsinu. 1934 var svo flutt í nýbyggt Hafnarhús og tollgæslan fékk skrifstofu, varðstofu og geymslur. Árið 1960 voru starfsmenn tollstjórans í Reykjavík orðnir 50 talsins og ljóst að bæta þyrfti aðstöðu embættisins til muna. Þá var ráðist í að byggja Tollhúsið við Tryggvagötu og var það tekið í notkun 1971.

Árið 2007 var tollumdæmum fækkað úr 26 í átta og umdæmi tollstjórans í Reykjavík stækkað. Eftir þessa breytingu náði það frá Straumsvík norður í Gilsfjörð og féllu undir það tollumdæmi sýslumannanna í Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Borgarnesi og Búðardal og tollumdæmi sýslumanns Snæfellinga.

Þann 1. janúar 2009 tóku gildi lög númer 147/2008 um breytingu á tollalögunum númer 88/2005 og fleiri lögum. Eftir breytinguna er Ísland eitt tollumdæmi sem heyrir undir embætti tollstjóra.  Við gildistöku laganna tók embætti tollstjórans í Reykjavík við réttindum og skyldum gagnvart  öllum tollvörðum sem voru starfandi hjá öðrum tollembættum í landinu.  Jafnframt breyttist heiti embættisins frá sama tíma í Tollstjóri. 

Í dag starfa hjá Tollstjóra um 180 manns og fer starfsemin fram á þremur stöðum í Reykjavík, auk starfsstöðva á Akureyri, Eskifirði, Ísafirði, Keflavíkurflugvelli, Selfossi, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir