Upplýsinga- og samskiptastefna

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Upplýsinga- og samskiptastefna

1. Meginstefna

Tollstjóri leggur áherslu á örugg og skilvirk samskipti og hefur að leiðarljósi að upplýsa og kynna starfsemi embættisins fyrir starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum.

2. Vefur Tollstjóra er samskiptamiðill embættisins við einstaklinga, fyrirtæki og samstarfsaðila. Samskipti við Tollstjóra skulu vera að mestu leyti rafræn

Tollstjóri leggur áherslu á rafræna stjórnsýslu sem eykur öryggi, bætir og einfaldar þjónustu og dregur úr kostnaði þjóðfélagsins alls. Tryggja skal að þeir sem ekki geta nýtt rafræna afgreiðslu fái fullnægjandi þjónustu.

3. Tollstjóri leggur metnað í að upplýsingar á vefnum séu réttar og áreiðanlegar og að vefurinn sé aðgengilegur

Upplýsingar um verkefni Tollstjóra eru á vefnum og skulu þær uppfærðar um leið og breytingar eiga sér stað. Lögð er áhersla á að skipulag vefsins sé skýrt og að auðvelt sé að finna upplýsingar. 
Sjá fyrirvara: http://tollur.is/upplysingar/fyrirvari og http://tollur.is/upplysingar/adgengi.

4. Tollstjóri skráir öll erindi rafrænt og gerir viðskiptavinum kleift að eiga í samskiptum við embættið á öruggu vefsvæði og nálgast yfirlit yfir erindi sín og stöðu þeirra

Viðskiptavinir geti þar sem því verður við komið afgreitt sig sjálfir, fengið upplýsingar um mál sem þeim tengjast, sent inn erindi og fylgst með afgreiðslu þeirra. Embættið geti afhent og tekið við gögnum viðskiptavina með öruggum hætti.

5. Tollstjóri skal einungis óska eftir upplýsingum sem embættið hefur ekki aðgang að annars staðar í stjórnkerfinu

Ef mögulegt er að nálgast nauðsynlegar upplýsingar hjá öðrum opinberum stofnunum ber embættinu að gera það, enda hafi viðskiptavinur áður gefið heimild sína fyrir slíkri upplýsingaöflun. Þó getur verið nauðsynlegt að óska eftir upplýsingum frá viðskiptavinum til viðbótar eða staðfestingar á fyrirliggjandi gögnum.

6. Þróun í netnotkun og tæknibreytingar

Tollstjóri gerir sér far um að fylgja þróun í notkun netmiðla, hvort sem breytingarnar verða vegna nýrra tækja og tækni eða breyttrar notkunar fólks á miðlunum.

7. Mælingar og þjónustukannanir

Tollstjóri notar viðurkenndar aðferðir til að mæla notkun vefsins og fylgjast með viðhorfi starfsfólks, viðskiptavina og samstarfsaðila til upplýsinga- og samskiptaleiða embættisins, með það að mark-miði að bæta þjónustuna.

8. Samskipti við fjölmiðla

Eingöngu tollstjóri, aðstoðartollstjóri, forstöðumenn, deildarstjórar og yfirtollverðir hafa samskipti við fjölmiðla nema annað sé sérstaklega ákveðið af yfirstjórn embættisins. Starfsmenn snúa sér til næsta yfirmanns telji þeir tilefni til að embættið sé í samskiptum við fjölmiðla vegna ákveðins máls.

9. Þagnarskylda

Starfsmenn Tollstjóra undirrita heitstaf til áréttingar þagnarskyldu sinni sem kveðið er á um í 18. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

10. Aðgangur málsaðila og almennings að upplýsingum í vörslu tollstjóra

Meðferð og skráning upplýsinga skal vera í samræmi við ákvæði tollalaga, upplýsingalaga, laga um persónuvernd, stjórnsýslulaga og annarra laga og reglna sem eiga við um starfsemi Tollstjóra. Tollstjóri skal tryggja að upplýsingum sem njóta verndar samkvæmt lögum sé ekki miðlað til óviðkomandi aðila.

11. Aðgangur starfsmanna að upplýsingum

Miðlun til starfsmanna á trúnaðarupplýsingum í vörslu Tollstjóra skal taka mið af viðfangsefnum og starfssviði þeirra.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir