Orðskýringar

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Orðskýringar

Smellið á upphafsstaf hér að neðan til að finna orð eða hugtak sem hefst á þeim staf.

Hér er einnig orðabók, síða með táknmálstáknum heyrnarlausra og listi yfir algengar skammstafanir í þessum vef.

Á vefnum nordisk e-tax er orðalisti á norðurlandamálum, á vef Utanríkisráðuneytis er hugtakasafn sem hægt er að leita í.

 

A B C D E F G H I J K L M N O P R S T U V X Y Z Þ Æ Ö

 

A

Afklippingar skráningarnúmera ökutækja
Sé bifreiðagjald eða þungaskattur ekki greitt á eindaga er innheimtumanni heimilt með aðstoð lögreglu, að taka skráningarmerki af ökutækjum. Gjaldanda skal þó áður tilkynnt um slíkt með hæfilegum fyrirvara, auk þess sem það er ítrekað í almennum greiðsluáskorunum sem birtast í dagblöðum.

Akstursleyfi
Akstursleyfi þarf í tengslum við tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja. 

Áfengisgjald
Öllum sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald.

Árangurslaust fjárnám
Ljúki fjárnámi án þess nokkrar eignir gerðarþola komi fram sem myndu nægja til greiðslu viðkomandi skattkröfu verður um árangurslaust fjárnám að ræða. Komi hinsvegar einhverjar eignir fram sem myndu nægja að hluta verður fjárnámið árangurslaust að hluta.

Aðfararveð
Veð fengið með fjárnámi.

Aðflutningsgjöld

Aðflutningsgjöld (í þessum vef oft nefnd innflutningsgjöld) eru tollar, vörugjöld, virðisaukaskattur og ýmis önnur gjöld, sem innheimt eru við innflutning vöru.

Það er meginregla að sá sem flytur vöru til landsins skal greiða af henni aðflutningsgjöld nema annað sé tekið fram í tollskrá eða lögum.

Meiri upplýsingar um aðflutningsgjöld


Aftur upp

B

Bifreiðagjald
Bifreiðagjald leggst á öll vélknúin ökutæki sem skráð eru hér á landi. Ekki skiptir máli hvort um bensín-, dísel- eða rafmagnsknúin ökutæki er að ræða. Fjárhæð bifreiðagjalds er ákveðin með lögum og fer eftir þyngd ökutækjanna


 Bensíngjald
Bensíngjald er vörugjald sem er föst krónutala á hvern seldan bensínlítra. Bensíngjald skiptist í almennt og sérstakt bensíngjald og rennur almenna bensíngjaldið til ríkissjóðs en sérstaka vörugjaldið fer til Vegagerðarinnar til að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins.

Aftur upp

E

 

Aftur upp

F

Fjárnám
Þvingunaraðgerð sem framkvæmd er til að knýja fram efndir á peningaskuldbindingum. Fjárnám vegna skattkröfu er framkvæmt af sýslumönnum eftir skriflegri beiðni innheimtumanns en skattkröfum fylgir fjárnámsréttur. Eftir að fjárnám hefur verið gert í fasteign eða lausafé gjaldanda verður því þinglýst sem aðfararveði og kemur þannig fram á þinglýsingarvottorði um viðkomandi eign. Á grundvelli fjárnámsins er unnt að biðja um nauðungarsölu á eigninni.

Fjármagnskostnaður
Kostnaður vegna vaxta- og lántökugjalda af skuldum.


 Fjármagnstekjuskattur
Einstaklingar greiða 10% tekjuskatt af fjármagnstekjum sínum sem ekki stafa af atvinnurekstri. Fjármagnstekjum má skipta í fjóra flokka sem eru:

 • Arður
 • Leigutekjur
 • Söluhagnaður
 • Vaxtatekjur

Fyrning og rof fyrningar
Réttur sem ekki hefur verið beitt með tilteknum hætti í ákveðinn tíma fellur niður vegna fyrningar. Fyrningartími skattkrafna er 4 ár frá gjalddaga. Unnt er að rjúfa fyrningu sem hefur þá í för með sér að nýr fyrningarfrestur hefst, jafnlangur hinum fyrri. Fyrning verður rofin m.a. með eftirfarandi hætti: Málsókn, beiðni um fjárnám, nauðungarsölubeiðni, gjaldþrotaskiptabeiðni, lýsingu skattkröfu í þrotabú, skriflegri viðurkenningu gjaldanda, skattbreytingu til hækkunar og með greiðslu gjaldanda inn á ófyrnda kröfu. 

Föst búseta
Með fastri búsetu er almennt átt við þann stað sem maður hefur aðsetur eða bækistöð, hefur heimilismuni sína, dvelst að jafnaði í tómstundum og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir t.d. vegna orlofs, vinnu o.fl.

Aftur upp

G

Gjalddagi/eindagi
Eindagi hefur þá merkingu að það sé sá dagur sem gjaldandi megi greiða á í síðasta lagi án þess að til vanefndaáhrifa komi. Eindagi í þessum skilningi getur verið hvort heldur er gjalddaginn sjálfur eða einhver annardagur sem á eftir kemur. Með vanefndaáhrifum er átt við skyldu gjaldanda til að greiða vanskilaálög í formi dráttarvaxta eða sérstaks lögbundins álags. Sé eindagi annar dagur en gjalddagi og greiðsla berst ekki fyrir eindaga reiknast dráttarvextir frá gjalddaga.

Greiðsluáskoranir
Almennar greiðsluáskoranir frá öllum innheimtumönnum ríkissjóðs birtast í tveimur dagblöðum sex sinnum á ári og þjóna þeim tilgangi að marka upphaf aðfararfrests, þ.e.a.s. ekki verður gert fjárnám fyrir þeim skattskuldum sem í áskoruninni eru tilgreindar fyrr en að liðnum 15 dögum frá birtingu greiðsluáskorunarinnar. Sérstakar greiðsluáskoranir eru sendar gjaldendum á sannanlegan hátt, s.s. með ábyrgðarbréfi, en slíkar greiðsluáskoranir eru forsendur þess að krefjast megi nauðungarsölu vegna lögveðsgjalda (fasteignaskatts, skipulagsgjalds og þungaskatts) og jafnframt forsenda þess að unnt sé að gera makaábyrgð gildandi svo dæmi sé tekið.

Greiðsluáætlun
Einhliða skrifleg yfirlýsing gjaldanda um greiðslutilhögun tiltekinna skatta og gjalda sem til innheimtu eru hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Í yfirlýsingunni, sem árituð er um móttöku af innheimtumanni, viðurkennir gjaldandinn kröfuna og setur fram áætlun um hvenær hann muni greiða. Greiðsluáætlun sem gjaldandi stendur við að fullu getur komið tímabundið í veg fyrir að gripið verði til innheimtuaðgerða en það fer þó eftir eðli og aldri skattanna hverju sinni. Slík yfirlýsing hefur þó ekki áhrif á skuldajöfnun vaxtabóta, barnabóta eða annarra inneigna í skattkerfinu á móti skuldinni. Greiðsluáætlun sem undirrituð hefur verið af gjaldanda markar upphaf nýs fjögurra ára fyrningarfrests frá undirritun.

Aftur upp

H

Heimilismunir
Til heimilismuna teljast t.d. húsgögn, búsáhöld og aðrir persónulegir munir.

Aftur upp

I

Innheimtumenn ríkissjóðs
Tollstjóri fer með innheimtu skatta og annarra tekna ríkissjóðs í Reykjavíkurumdæmi, þ.e. í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ og í Kjósarhreppi. Sýslumenn í öðrum umdæmum fara með innheimtu tekna ríkissjóðs.

Innskattur
Innskattur er sá virðisaukaskattur sem rekstraaðili þarf að borga öðrum þegar hann kaupir vöru og þjónustu vegna rekstrar. Þennan innskatt má rekstraraðili oftast draga frá þeim virðisaukaskatti sem hann hefur sjálfur innheimt (útskatti).

Aftur upp

J

Jafnræðisregla
Reglan er ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Hún felur það í sér að öll mál sem sambærileg eru í lagalegu tilliti skuli hljóta samskonar úrlausn.

Aftur upp

 

 

K

Kílómetragjald
Kílómetragjald er krónutala á hvern ekinn kílómetra sem leggst á eigendur ökutækja þyngri en 10 tonn. Tekjur ríkisins af kílómetragjaldi renna til Vegagerðarinnar til að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins.

Aftur upp

L

Launaafdráttur
Innheimtumaður ríkissjóðs getur krafist þess af launagreiðanda þess gjaldanda sem er í vanskilum með tiltekna skatta að hann haldi eftir af launum gjaldandans til greiðslu á vanskilum. Hámark þess sem unnt er að halda eftir samkvæmt þessu er 75% af brúttólaunum. Launagreiðandanum er skylt að verða við þessari kröfu. Þeir skattar sem heimilt er að draga af launum eru: tekjuskattur, eignaskattur, útsvar, búnaðargjald, gjald í Lífeyrissjóð bænda, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Einnig er heimilt að beita launaafdrætti vegna samsvarandi gjalda á grundvelli Norðurlandasamnings um aðstoð í skattamálum.

Lokunaraðgerðir
Þessum aðgerðum er ætlað að knýja fram efndir á skyldu til greiðslu skatta. Lokun er framkvæmd af lögreglu með því að setja starfsstöðvar, skrifstofur, tæki og vörur undir innsigli þar til viðkomandi aðilar fullnægja skyldu sinni samkvæmt lögum. Samhliða lokunaraðgerðum verður öðrum innheimtuúrræðum beitt svo sem fjárnámi. Lokun atvinnurekstrar verður einungis framkvæmd vegna vanskila gjaldanda á vörslusköttum.

Lögaðili
Stofnun eða félag sem viðurkennt er að geti átt réttindi og borið skyldur. Ríki, sveitarfélög, stofnanir og félög eru lögaðilar og hafa öll sínar kennitölur.

Lögveð
Ósýnilegt haft sem lagt er á fasteign eða lausafé. Heimild fyrir stofnun lögveðs er að finna í lögum og þarf ekki að þinglýsa því. Meginreglan er sú að lögveð gengur fyrir samnings- og aðfararveðum. Sem dæmi um lögveðsrétt má nefna lögveð í fasteign fyrir fasteignagjöldum og lögveð í bifreið vegna vangreiðslu þungaskatts.

Aftur upp

 

M

 

Makaábyrgð
Hjón bera óskipta ábyrgð á greiðslum tekjuskatts, eignarskatts og útsvars sem á þau er lagt og geta innheimtumenn ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Sama regla gildir um samskattað sambúðarfólk og einstaklinga í staðfestri samvist.

Meðalhófsregla
Reglan er ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem felur m.a. í sér að stjórnvöld verða að gæta hófs í meðferð valds síns. Sé t.d. fleiri úrræða völ við innheimtu skatta skal velja það úrræði sem vægast er.

Aftur upp

N

Nauðasamningur
Samningur um greiðslu skulda eða eftirgjöf af skuldum sem kemst á milli skuldarans og áskilins meirihluta lánardrottna hans og sem síðan hlýtur staðfestingu fyrir dómi. Slíkur nauðasamningur bindur einnig aðra lánardrottna skuldarans í samræmi við lög nr. 21/1991.

Nauðungarsala
Sala á eign gegn vilja eigandans sem er venjulega lokastig til að knýja fram efndir á peningakröfu. Sýslumenn framkvæma nauðungarsölu en krafa um nauðungarsölu þarf að styðjast við sérstaka heimild, t.d. fjárnám eða lagaákvæði um lögveðsrétt.

Aftur upp

O

Olíugjald
Olíugjald er vörugjald sem er föst krónutala á hvern seldan lítra af dísilolíu. Olíugjald er eingöngu lagt á olíunotkun vegna ökutækja sem nota vegakerfi landsins. Tekjur ríkisins af olíugjald renna til Vegagerðarinnar til að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins.

Opinber gjöld
Skattar almennt til ríkissjóðs og sveitarsjóða. Sköttum þessum er ætlað að standa straum af kostnaði við sameiginlega þjónustu í þjóðfélaginu. Í raun það sama og skattar til ríkissjóðs og sveitarsjóða.

Aftur upp

P

Persónuafsláttur
Persónuafsláttur er hluti af tekjuskattskerfi einstaklinga.  Með persónuafslætti er átt við sérstakan afslátt af tekjuskatti vegna launa einstaklinga.  Upphæðin er föst krónutala og myndar svonefnd skattleysismörk.  Makar geta nýtt sér ónýttan afslátt hvors annars.

Aftur upp

R

Rafrænt skilríki
Rafræn skilríki eru skilríki á stafrænu formi til notkunar í rafrænum heimi. Skilríkin geta verið á margskonar miðlum og verið notuð í ýmsum tilgangi. Mikilvægt skref í almennri notkun fólks og fyrirtækja á rafrænum skilríkjum á Íslandi er útgáfa rafrænna skilríkja á debetkortum.

Sem dæmi um notkun rafrænna skilríkja má nefna rafræna undirritun skjala og rafræna auðkenningu, sem gerir notanda kleyft að sanna hver hann er. Með því að framvísa rafrænu skilríki og auðkenna sig getur notandi fengið aðgang að tölvukerfum og upplýsingum sem hann á rétt á og hefur aðgang að.

Sjá nánar um rafræn skilríki

Ráðstöfunartekjur
Heildartekjur heimilanna að frádregnum sköttum og vaxtagjöldum en að viðbættum svokölluðum millifærslutekjum, en það eru þeir fjármunir sem renna frá hinu opinbera til einstaklinga (s.s. bætur, styrkir o.þ.h.)

Aftur upp

S

Sameignarfélag
Félagsskapur tveggja eða fleiri manna eða félagsaðila um atvinnustarfsemi þar sem þeir bera beina og ótakmarkaða persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Sameignarfélag er lögaðili og sjálfstæður skattaðili hafi þess verið sérstaklega óskað við skráningu félagsins.

Samvinnufélag
Félagatala er óbundin að lögum og félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Skattar til ríkis og sveitarfélaga (opinber gjöld). Hér er almennt átt við alla skatta og gjöld sem einstaklingar og lögaðilar skulu greiða til ríkis eða sveitarfélaga, án þess að trygging sé fyrir því að endurgjald komi í staðinn. Skatta verður að leggja á eftir almennum efnislegum/hlutlægum mælikvarða og vissri jafnræðisreglu. Skattar eru lagðir á ákveðinn stofn, t.d. tekjur, eignir, vöru eða þjónustu.

Sérstök innflutningsskilyrði
Vörutegundir geta verið háðar leyfi frá hinum ýmsu stofnunum. Vegna innflutnings á símum og öðrum fjarskiptatækjum þarf til dæmis leyfi Fjarskiptaeftirlits og vegna innflutnings á skotvopnum og skotfærum þarf leyfi lögreglustjóra.

Skammstafanir

Skammstafanir sem oft koma fram í texta sem tengist starfsemi Tollstjóra:


HS - Harmonized System, alþjóðlegt kerfi sem notað er til tollflokkunar á vörum


m.a. - meðal annars

mgr. - málsgrein

m.s.br - með síðari breytingum

gr. - grein (oftast átt við númer greinar laga eða reglugerðar)

pdf - Skjal af skráartegundinni Portable Document Format, Adobe Acrobat skjöl. 

ppt - Microsoft PowerPoint skjal

sbr. - samanber

skv. - samkvæmt

s.s. - svo sem

tnr. - tollskrárnúmer

tölul. - tölulið

o.þ.h. - og þess háttar

xls - Microsoft Excel skjal

Í Wiki orðabókinni og í Wikipedia eru upplýsingar um fleiri Íslenskar skammstafanir.

 

Skattar
Í lagaheimildum um skatta (skattlagningarheimildum) í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar verður m.a. að kveða skýrlega á um skattskyldu, skattstofn og gjaldstig eða fjárhæð skatts að öðru leyti.

40. gr. stjórnarskrárinnar: Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.

77. gr. stjórnarskrárinnar: Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

Skattleysismörk
Skattleysismörk eru mörk þeirra tekna þar sem starfsmenn fara að greiða skatt. Skattleysismörk eru fundin með því að deila skatthlutfallinu í mánaðarlegan persónuafslátt.

Skiptiliður
Íslensk undirskipting tollskrárnúmers táknuð með tveimur síðustu tölustöfunum.
Sjá einnig tollskrárnúmer

Skuldajöfnuður
Kröfur sem ganga upp hvor á móti annarri án þess að greiðsla fari fram þannig að niðurstaðan sé þá hin sama og báðar kröfurnar hefðu verið greiddar svo langt sem skuldajöfnuðurinn nær. Nærtækustu dæmin hvað skattkröfur varðar er að inneign skapist í skattkerfinu, t.d. inneign í virðisaukaskatti eða barna- eða vaxtabótum og að þeim inneignum sé skuldajafnað á móti skattskuld sama rétthafa. Eftirgreind skilyrði þurfa að vera til staðar til þess að skuldajöfnuður sé heimill:

 • Kröfurnar séu milli sömu aðila
 • Báðar kröfurnar séu peningakröfur (samkynja)
 • Báðar kröfurnar séu gildar
 • Báðar kröfurnar séu fallnar í gjalddaga

 

Stjórnsýslukæra
Ákvörðun lægra setts stjórnvalds er venjulega hægt að skjóta til æðra stjórnvalds sem er skylt að endurskoða ákvörðunina. Sem dæmi má hér nefna að vilji gjaldandi ekki una tilteknum innheimtuaðferðum innheimtumanns ríkissjóðs getur hann skotið málinu til æðra stjórnvalds, í þessu tilviki fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Aftur upp

T

Tollur
Gjald sem innheimt er af vöru samkvæmt tollskrá við innflutning.

Tollskrá
Tollskráin er alþjóðlegt flokkunarkerfi yfir flytjanlegar vörur og er samin af Tollasamvinnuráðinu í Brussel (nú WCO) upp úr eldra kerfi sem notað var hér á landi til áramóta 1987-88. Kerfið heitir á ensku "Harmonised System", stytt HS.

Tollskrárnúmer
Átta stafa tala sem notuð er til að tákna ákveðna vöru í tollskránni, tollskrárnúmer skiptist í eftirtalda liði:

 1. VöruliðirFeitletraði textinn og táknaður með fjórum fyrstu tölustöfunum í tollskrárnúmeri.
 2. Undirliðir: Er táknaður með næstu tveimur tölustöfunum annað hvort þeim fyrri eða báðum (núll hefur ekkert gildi) og þá ýmist einu þankastriki eða tveimur á undan texta.
 3. Skiptiliðir: Íslensk undirskipting táknuð með tveimur síðustu tölustöfunum og er oftast tollskrárnúmer. Fjöldi þankastrika fer eftir því hvort einhverjir undirliðir koma á undan.

Nánari upplýsingar um tollskrárnúmer og tollflokkun

 

Tollverð innfluttrar vöru
Verðmæti innfluttrar vöru til nota við álagningu tolls á innflutta vöru. Nánar tiltekið er um að ræða það verð sem greitt er fyrir vöruna að viðbættu flutningsgjaldi og öðrum kostnaði sem fellur á vegna flutnings á vörunni til landsins t.d. pökkunarkostnaði og vátryggingu.

Tryggingagjald
Gjald sem launagreiðendum ber að standa skil á til ríkisins og er það reiknað af heildarlaunum starfsmanna, þar á meðal endurgjaldi sem launagreiðendum ber að reikna sér fyrir vinnu sína við reksturinn. Tekjur af tryggingagjaldi eru markaðar tekjur, sjá markaðar tekjur.

Aftur upp

U

Undirliður
Fimmti og sjötti starfur tollskrárnúmers
Sjá einnig tollskrárnúmer

Úrvinnslugjald
Úrvinnslugjald er lagt á tilteknar vörur til að standa undir kostnaði við úrvinnslu úrgangs er af þeim leiðir.


 Útskattur
Útskattur er sá skattur sem seljandi vöru og þjónustu innheimtir af skattskyldri veltu sinni en skattskylda veltan er metin til verðs á skattverði. Skatturinn leggst á skattverðið og er 24% nema sérregla um 7% skatt eigi við. 

Aftur upp

V

Verðbólga
Hækkun á verði á vöru og þjónustu. Algengasti mælikvarði á verðbólgu er vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands mælir mánaðarlega. Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Venjulegast er rætt um verðbólgu á ársgrundvelli en það þýðir að hækkun verðlags milli tveggja mánaða er yfirfærð á þá breytingu á vísitölu sem mánaðarhækkunin hefði í heilt ár.  Þegar verðbólga er breytileg er stundum talað um verðbólgu milli ársmeðaltala annars vegar en verðbólgu frá upphafi til loka árs hins vegar. Þegar verðbólga breytist lítið er enginn munur á þessu. 


Vélknúin ökutæki
Bifreiðar, bifhjól, beltabifhjól, vélbátar, flugvélar og farartæki eins og seglbátar, svifflugur, svifdrekar o.þ.h.

Virðisaukaskattur
Virðisaukaskattur er almennur neysluskattur sem innheimtur er af innlendum viðskiptum á öllum stigum. Hann er einnig innheimtur við innflutning vöru og þjónustu. Almennt þrep í virðisaukaskatti er 24%. Þó eru innheimt 11% af eftirtalinni vöru og þjónustu:

 • Útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu.
 • Afnotagjöldum hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva.
 • Sölu tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða.
 • Sölu bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.
 • Sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
 • Sölu á matvælum og öðrum vörum til manneldis sem skilgreindar eru í viðauka við lög um virðis auka skatt.
 • Aðgangi að vegamannvirkjum, s.s. gjaldtöku vegna aðgangs að Hvalfjarðargöngum.
 • Sölu á geisladiskum, hljómplötum, segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum með tónlist en ekki mynd.

Sum þjónusta ber ekki virðisaukaskatt svo sem heilbrigðisþjónusta.


Vörsluskattar
Þeir skattar sem lagðir eru á vöru og þjónustu og söluaðila ber að innheimta við sölu á hinni skattskyldu vöru eða þjónustu og skila til ríkissjóðs. Það er einkenni vörsluskatta að refsivert er að gera ekki skil á þeim til ríkissjóðs. Vörsluskattar eru eftirgreindir skattar:

 • Staðgreiðsla opinberra gjalda
 • Tryggingagjald
 • Virðisaukaskattur
 • Vörugjald
 • Áfengisgjald
 • Staðgreiðsla skatts af fjármagnstekjum
 • Skilagjald af einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur

Vörugjald
Vörugjald er gjald sem leggst á vörur við innflutning eða innanlandsframleiðslu. Annars vegar er lagt á svokallað magngjald sem er þá í samræmi við það magn af vöru sem er framleitt eða flutt inn. Hins vegar er til svokallað verðgjald sem er þá í réttu hlutfalli við verðmæti vörunnar.

Vöruliður
Fyrstu fjórir tölustafir tollskrárnúmers
Sjá einnig tollskrárnúmer

Aftur upp

Þ

Þinggjöld
Gjöld til ríkissjóðs sem lögð eru á einu sinni á miðju ári, þ.e. tekjuskattur, eignaskattur, sérstakur eignaskattur, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og álagt tryggingagjald.

Þjónustugjöld
Þessi gjöld verða ekki innheimt án heimildar í lögum og þá eingöngu til að standa straum af þeim kostnaði sem lagaheimildin mælir fyrir um. Gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin nær til. Ráðstöfun þjónustugjalda er bundin með lögum þannig að einungis er heimilt að verja slíkum gjöldum til að greiða þá kostnaðarliði sem heimilt er að leggja til grundvallar við útreikning á fjárhæð gjaldanna.

Aftur upp

 

  

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir