Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína - Algengar spurningar og svör við þeim

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína - Algengar spurningar og svör við þeim

1.       Um hvað snýst samningurinn? - Hann felur í sér niðurfellingu eða lækkun á tollum á fjölmargar vörutegundir. Áfram þarf þó að greiða önnur aðflutningsgjöld af sendingu.

2.       Hvenær tekur samningurinn gildi?  - Samningurinn tekur gildi 1. júlí.

3.       Mega vörurnar vera farnar af stað fyrir þann tíma? - Sjá lið 4.

4.       Er hægt að senda vöruna af stað fyrir gildistökuna og gefa út upprunavottorð eftirá, þ.e. þegar samningurinn hefur tekið gildi? - Að öllum formskilyrðum uppfylltum munu Íslensk tollyfirvöld taka gild upprunavottorð útgefin afturvirkt eða "ISSUED RETROSPECITIVELY" (skv. 5.mgr. 36.gr. samningsins) þó að vörusendingar hafi verið sendar frá Kína fyrir gildistökuna. Af þessu leiðir að innflytjendur sem tollafgreiddu upprunasendingar frá Kína eftir gildistöku Kínasamningsins, 1.júlí s.l., án þess að leggja fram gilda upprunasönnun, geta lagt fram beiðni um leiðréttingu (afgreiðslu 2) að því gefnu að þeir leggi fram gilt upprunavottorð samkvæmt samningnum, útgefið afturvirkt, frá þar tilbærum kínverskum yfirvöldum. Á sama hátt geta íslenskir útflytjendur sem sendu út upprunasendingar til Kína fyrir 1.júlí, tollafgreiddar í Kína eftir 1.júlí, óskað eftir útgáfu upprunavottorðs útgefnu afturvirkt hjá embætti Tollstjóra og látið reyna á endurupptöku í Kína.

5.       Hvaða leiðir get ég farið til að nýta mér samninginn? Þrír möguleikar eru í boði til til að njóta fríðindameðferðar skv. fríverslunarsamningnum; upprunavottorð, upprunayfirlýsing og ritun á vörureikning ef um smærri sendingar er að ræða. Sjá nánar:

a. Upprunavottorð: Um er að ræða skjal í þríriti sem nálgast má í afgreiðslu Tollstjóra í Tryggvagötu 19. Skjalið þarf útflytjandi sjálfur að fylla út og síðan koma með það til embættisins og fá það stimplað. Útlit skjalsins má sjá í viðauka V við samninginn. Sjá einnig 36. gr. samningsins.

b. Upprunayfirlýsing: Hafi fyrirtæki fengið leyfi til að teljast viðurkenndur útflytjandi getur það gefið út upprunayfirlýsingu. Upprunayfirlýsingu þarf viðurkenndur útflytjandi að prenta og stimpla og kemur Tollstjóri ekki að útgáfu skjalsins. Útlit skjalsins má sjá í viðauka VI við samninginn. Frekari upplýsingar má sjá í 37. og 38. gr. samningsins.

c. Smærri sendingar: Ef sending upprunavöru er að verðmæti undir 600 USD þarf henni ekki að fylgja upprunayfirlýsing né upprunavottorð. Þá er nægilegt að skrifa á vörureikning að um upprunavöru sé að ræða. Sjá 39. gr. samningsins. Netverslun með smærri sendingar fellur hér undir.

6.       Þarf varan að fara beint á milli landanna tveggja? - Já, samningurinn kveður á um beinan flutning. Þó eru undantekningar á því, þar sem heimilt er að umskipa sendingunni eða geyma tímabundið undir tolleftirliti í öðru ríki, að því gefnu að sendingin sé ekki tollafgreidd inn í landið og hljóti ekki aðvinnslu aðra en umhleðslu, endurhleðslu, uppskiptingu sendingar eða aðra aðgerð sem nauðsynleg er til að varðveita ástand vörunnar. Sjá nánar í 33. gr. samningsins. Ef vara er keypt t.d. í Evrópu og send þaðan, en er upprunalega frá Kína, er ekki hægt að nýta samninginn.

7.       Hvar sé ég hvaða tollur verður lagður á vöruna ef hún fær fríðindameðferð? - Tolláætlanir Kína og Íslands má nálgast á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Sjá viðauka I og II við samninginn.

8.       Má vörureikningur vera frá fyrirtæki sem er ekki staðsett í Kína heldur t.d. í Evrópuríki?  - Já, þrátt fyrir að vörureikningur komi frá öðru ríki getur sending notið fríðindameðferðar hafi sendingin sjálf komið í beinum flutningi frá Kína.

9.       Ég vil flytja vöru til Íslands frá Kína. Hvað geri ég þá? - Sömu upprunasannanir eiga við um innflutning til Íslands frá Kína, sjá því spurningu 5.  Ætli innflytjandi að nýta sér upprunavottorð við innflutning til Íslands þarf það að vera gefið út af Kínverskum tollyfirvöldum. Vísast til þarlendra tollyfirvalda varðandi útgáfu þeirra. Upprunayfirlýsing við innflutning frá Kína til Íslands er gefin út af viðurkenndum útflytjenda samkvæmt heimild frá Kínverskum tollyfirvöldum. Varðandi heimild til að gerast viðurkenndur útflytjandi frá Kína er vísað til þarlendra yfirvalda. Íslensk tollyfirvöld gefa ekki út upprunavottorð fyrir vöru sem kemur frá Kína, aðeins vöru sem kemur frá Íslandi.

Frekari upplýsingar um samninginn má nálgast á vef utanríkisráðuneytisins

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir