Tilkynning nr. 1/2003 um breytingar á sviði tollamála

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 1/2003 um breytingar á sviði tollamála

20.01.2003

Vakin er athygli á eftirtöldum breytingum á sviði tollamála, svo sem breyting á tollskrá, úrvinnslugjald o.fl., sem flestar tóku gildi 1. janúar 2003

  1. Auglýsing um takmörkun á innflutningi á hnetum og hnetuafurðum frá Kína
     
    Gildistaka
    Þann 20. desember 2002 tók gildi auglýsing nr. 899/2002 um takmörkun á innflutningi á hnetum og hnetuafurðum frá Kína.  Frá sama tíma féll úr gildi auglýsing nr. 210/2002 um takmörkun á innflutningi tiltekinna matvæla frá Kína. 
     
    Helstu ákvæði
    Samkvæmt auglýsingunni er óheimilt að flytja inn hnetur og hnetuafurðir til manneldis sem upprunnar eru frá Kína og falla undir eftirtalin tollskrárnúmer:  1202.1000, 1202.2000, 2008.1109, nema innflytjandi geti framvísað vottorði frá opinberum eftirlitsaðila um að varan innihaldi hvorki aflatoksín B1 né önnur aflatoksín yfir hámarksgildum skv. reglugerð nr. 284/2002 um aðskotaefni í matvælum, með síðari breytingum.  
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     
  2. Auglýsing um takmörkun á innflutningi á þurrkuðum fíkjum, heslihnetum, pistasíum, og afurðum úr þeim frá Tyrklandi
     
    Gildistaka
    Þann 20. desember 2002 tók gildi auglýsing nr. 901/2002 um takmörkun á innflutningi á þurrkuðum fíkjum, heslihnetum, pistasíum, og afurðum úr þeim frá Tyrklandi.  Frá sama tíma féll úr gildi auglýsing nr. 211/2002 um takmörkun á innflutningi tiltekinna matvæla frá Tyrklandi.
     
    Helstu breytingar
    Óheimilt er að flytja inn eftirtalin matvæli sem upprunnin eru frá Tyrklandi:
    • Þurrkaðar fíkjur sem falla undir tollskrárnúmer 0804.2000
    • Heslihnetur sem falla undir tollskrárnúmer 0802.2100 eða 0802.2200
    • Pistasíur sem falla undir tollskrárnúmer 0802.5000
    • Blöndur af hnetum og þurrkuðum ávöxtum sem falla undir tollskrárnúmer 0813.5001 og 0813.5009, sem innihalda fíkjur, heslihnetur eða pistasíur
    • Unnar afurðir úr heslihnetum, fíkjum og pistasíum, þ.m.t. blöndur sem falla undir tollskrárnúmer 2008.1900
    • Fíkjudeig og heslihnetudeig sem falla undir tollskrárnúmer 2007.9900

    nema innflytjandi geti framvísað vottorði frá opinberum eftirlitsaðila um að varan innihaldi hvorki aflatoksín B1 né önnur aflatoksín yfir hámarksgildum skv. reglugerð nr. 284/2002 um aðskotaefni í matvælum, með síðari breytingum. 
     
    Sjá nánar í B-deild Stjórnartíðinda.
     

  3. Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 679/2002 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti
     
    Gildistaka
    Þann 30. desember 2002 tók gildi reglugerð nr. 929/2002 um (3.) breytingu á reglugerð nr. 679/2002 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti. 
     
    Helstu ákvæði
    Eftirfarandi breytingar verða á tilgreindum tímabilum, verð- og magntolli, vegna innflutnings á rauðkáli og kínakáli í 2. gr. reglugerðarinnar:

     
     Vara Tímabil Vörumagn Verðtollur Magntollur
    Tollnúmer:   kg % kr./kg
    0704.9002 Rauðkál 30.12.02-30.06.03 ótilgr. 0 0
    0704.9003 Kínakál 06.01.03-30.06.03 ótilgr. 0 0 
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     
  4. Lög um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum
     
    Gildistaka
    Þann 30. desember 2002 tóku gildi lög nr. 153/2002 um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.  
     
    Helstu ákvæði
    Samkvæmt lögunum skal í stað orðanna „og fiska og erfðaefnis þeirra” í 1. málsl. 13. gr. laganna koma:  fiska og erfðaefnis þeirra, svo og svína og erfðaefnis þeirra frá viðurkenndum kynbótabúum eða sæðingarstöðvum.  
     
    Sjá nánar A-deild Stjórnartíðinda.
     
  5. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum
     
    Gildistaka
    Þann 1. janúar 2003 tók gildi reglugerð nr. 922/2002 um breyting á reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum.
     
    Helstu ákvæði
    Samkvæmt reglugerðinni var gerð eftirfarandi breyting á 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds á bílaleigubifreiðar:
     
     
    „Bifreið skal að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka, svo sem vegna ferðalaga eða tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar.  Bílaleigu er óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra bifreið, nema í eftirtöldum tilvikum:
    • þegar leigutaki er vátryggingafélag, sem hefur starfsleyfi hér á landi og bifreið er tekin á leigu vegna tímabundins afnotamissis vátryggingataka af eigin bifreið.
    • þegar leigutaki er lögaðili og bifreið er tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans.

    Í þeim tilvikum sem um getur í a- og b-lið hér að framan skal tekið fram í leigusamningi að hann sé gerður í þágu tiltekins vátryggingartaka vegna tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar eða tiltekins starfsmanns lögaðila vegna ferðalaga hans.  Notkun hvers ökumanns skal háð skilyrðum 2. málsl. þessa töluliðs.”
     
    Á eftir 2. mgr. 14. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     
     
    „Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að flytja bílaleigubifreið, sem uppfyllir skilyrði fyrir lækkun vörugjalds skv. 1. mgr., varanlega úr landi innan 6 mánaða frá nýskráningu bifreiðar, án greiðslu eftirgefins vörugjalds.  Sé bifreið flutt aftur til landsins skal greiða af henni vörugjald að nýju.”
     
    Jafnframt var gerð eftirfarandi breyting á 3. tölul. 15. gr. um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds á leigubifreiðar:
     
     
    „Rétthafi skal hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf var veitt.  Að loknum þremur árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda viðkomandi tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum rétthafa.  Berist tollstjóra ekki framangreind skattframtöl skal hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.”
     

    Með þessari breytingu er því fallið frá þeirri breytingu sem gerð var með reglugerð nr. 805/2002 á 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. og fjallað var um í tilkynningu til tollstjóra nr. 16/2002.
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     

  6. Lög um breyting á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda
     
    Gildistaka
    Þann 1. janúar 2003 tóku gildi lög nr. 131/2002 um breyting á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  
     
    Helstu breytingar
    Samkvæmt lögunum er eftirfarandi breyting gerð á 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna:
     
     
    „Við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skv. 1. gr. skal greiða gjaldanda vexti, sem skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðslan fer fram.
     
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.”
     
     
    Breyting þessi lýtur að því við hvaða vexti eigi að miða við endurgreiðslu.  
     
    Sjá nánar A-deild Stjórnartíðinda.
     
  7. Breyting á tollskrá.  Auglýsing um breyting á viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum
     
    Gildistaka
    Þann 1. janúar 2003 tók gildi auglýsing nr. 169/2002 um breyting á viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum og tekur hún til allra vara sem ótollafgreiddar voru við gildistöku hennar.  
     
    Helstu breytingar
    Gerðar eru breytingar á nokkrum tollskrárnúmerum í 2., 3., 4., 22., 39., 48. og 85. kafla tollskrárinnar. 
     
    Sjá nánar í B-deild Stjórnartíðinda.
     
  8. Auglýsing um lok banns við innflutningi frá Danmörku vegna Newcastle-veiki
     
    Gildistaka
    Þann 6. janúar 2003 tók gildi auglýsing nr. 3/2003 um lok banns við innflutningi frá Danmörku vegna Newcastle-veiki.  
     
    Helstu ákvæði
    Er með auglýsingunni fellt úr gildi bann landbúnaðarráðuneytisins á innflutningi frá Danmörku á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Danmörku, sem sett var með auglýsingu nr. 863/2002.
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     
  9. Lög um úrvinnslugjald
     
    Gildistaka
    Þann 1. janúar 2003 tóku gildi lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.  Frá sama tíma féllu úr gildi lög nr. 56/1996, um spilliefnagjald.
     
    Helstu ákvæði
     
    Tilgangur laganna, framkvæmd, gjaldskyldir aðilar o.fl.
    Tilgangur laganna er að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.  Með tilkomu laganna er gert ráð fyrir úrvinnslugjaldi á tilteknar vörur við innflutning og innlenda framleiðslu til að stuðla að úrvinnslu úrgangs.  Með tilkomu laganna er fellt niður spilliefnagjald á vörur sem áður hafa borið slíkt gjald en í staðinn kemur úrvinnslugjald á sömu vörur, auk nokkurra annarra.  Þá er með lögunum gert ráð fyrir skilagjaldi á tilteknar vörur í tollskrá.  Þær vörur sem ekki báru spilliefnagjald en bera nú úrvinnslugjald eru eftirtaldar:  
     
    • Samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur
    • Hjólbarðar, bæði fluttir einir og sér og á ökutækjum
    • Ökutæki

    Gert er ráð fyrir að úrvinnslugjald leggist á ökutæki og skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á hverju gjaldtímabili greiða kr. 520,00- í úrvinnslugjald af bifreiðinni, tvívegis ár hvert, eða 1. janúar og 1. júlí.  Gjaldið verður innheimt með bifreiðagjöldum.  Bifreiðar sem eru undanskyldar bifreiðagjöldum bera samt úrvinnslugjald.  Greiða ber úrvinnslugjald í 15 ár frá skráningu ökutækis hér á landi.  Þá er gert ráð fyrir því að hver sá sem afhendir gjaldskylt ökutæki til endurnýtingar eða förgunar eigi rétt á skilagjaldi að fjárhæð kr. 10.000,00-.  
     
    Þá er í lögunum gert ráð fyrir úrvinnslugjaldi á aðrar vörur, s.s. drykkjarvöruumbúðir og skilagjaldi á drykkjarvöruumbúðir að fjárhæð kr. 9,00- eins og nánar er kveðið á um í 7. og 8. gr. laganna, sbr. viðauka.  Endurgreiðsla þessi kemur þó ekki til framkvæmdar fyrr en 1. janúar 2008.  Þangað til gilda ákvæði laga nr. 52/1989 varðandi skilagjald á drykkjarvöruumbúðir.  Gert er ráð fyrir að svartolía verði undanþegin gjaldtöku enda hafi samningur fengið staðfestingu Úrvinnslusjóðs og hann verið tilkynntur tollstjóra. 
     
    Vakin er athygli á því að þrátt fyrir að lögin hafi öðlast gildi 1. janúar 2003 er ekki gert ráð fyrir því að móttaka á flokkuðum úrgangi, sem til er kominn vegna vara sem bera úrvinnslugjald, hefjist fyrr en 1. apríl n.k. vegna vara sem falla undir viðauka II, X og XVI.  Þá er gert ráð fyrir því að móttaka á ökutækjum hefjist 1. júlí n.k. auk greiðslu skilagjalds á ökutæki.  Móttaka á flokkuðum úrgangi, sem til er kominn vegna vara sem bera úrvinnslugjald og falla undir viðauka I hefst eigi síðar en 1. júlí 2004.  
     
    Gjaldskyldir aðilar eru m.a. allir sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur skv. lögunum til endursölu eða eigin nota (innflytjendur, svo sem einstaklingar, félög, sjóðir og stofnanir, sveitarfélög og stofnanir þeirra, ríkissjóður, ríkisstofnanir, erlendir verktakar og aðrir sem flytja inn umræddar vörur).
     
    Gjaldskyldum aðilum sem flytja inn vörur til endursölu ber að tilkynna úrvinnslugjaldsskylda starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra þar sem aðili hefur lögheimili.  Skráning hjá skattstjóra er forsenda fyrir sérstökum greiðslufresti úrvinnslugjalds, sbr. 11. gr. laganna.
     
    Tollstjórar annast álagningu og innheimtu úrvinnslugjalds af innfluttum gjaldskyldum vörum og skal það innheimt með aðflutningsgjöldum.  Tollstjórar innheimta jafnframt gjald vegna innlendrar framleiðslu sem skattstjórar leggja á.
     
    Um kæruheimildir vísast til 13. gr. laganna en heimilt er að kæra álagningu gjalds innan 30 daga frá gjalddaga þess.  Kæru skal beint til þess tollstjóra sem annaðist álagningu gjaldsins varðandi innfluttar vörur.
     
    Um sérstakan greiðslufrest á úrvinnslugjaldi við tollafgreiðslu, SMT-tollafgreiðslu, gjaldalykla o.fl.
    Ef innflytjandi er skráður gjaldskyldur úrvinnsluaðili hjá skattstjóra þá fær innflytjandi sérstakan greiðslufrest á úrvinnslugjaldi við tollafgreiðslu, sbr. 11. gr. laganna um úrvinnslugjald.  Uppgjörstímabil vegna innfluttrar vöru er þá tveir mánuðir og er gjalddagi hvers tímabils 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.  Innflytjendur sem flytja vörur til landsins til endursölu skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða tollstjóra úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu.  Innflytjendur sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota skulu greiða úrvinnslugjald við tollafgreiðslu.  Úrvinnslugjald, sem skuldfært er við tollafgreiðslu er innheimt með gíróseðli til innflytjanda.  Ef innflytandi er ekki skráður gjaldskyldur úrvinnsluaðili hjá skattstjóra gilda almennar reglur um skuldfærslu úrvinnslugjalda, sbr. reglugerð nr. 390/1999 um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, með síðari breytingum.
     
    Ef innflytjandi er skráður úrvinnslugjaldskyldur aðili hjá skattstjóra og stundar SMT-tollafgreiðslu þá þarf að uppfæra tollskýrsluhugbúnað vegna eftirfarandi breytinga:  Nýr skuldfærslukódi (S7) er sendur í CUSTAR EDI-skeyti, tilkynningu um SMT-tollafgreiðslu og skuldfærslu aðflutningsgjalda.  Þennan skuldfærslukóda þarf að skrá og skilgreina í hugbúnaði innflytjanda og flutningsmiðlara.  Sjá nánar Tilkynning vegna SMT-tollafgreiðslu og úrvinnslugjalda, sem tóku gildi 1. janúar 2003 á vef tollstjóra.
     
    Gjaldalyklar úrvinnslugjalda við tollafgreiðslu í Tollakerfi, tölvukerfi tollafgreiðslu, á greiðslukvittun aðflutningsgjalda og við SMT/VEF-tollafgreiðslu eru þessir: BA, BB, BC, BD, BE, BF, BH, BI, BJ, BK, BL, BM, BN, BO, BQ, BR, BS og BT.  Nýir gjaldalyklar frá 1. janúar 2003 eru BQ, BR, BS og BT.  BG gjaldakódi fellur niður frá og með 1. janúar 2003.  Sérstaklega skal bent á að gjaldstofn gjaldalykla BC, BH og BN breytist frá 1. janúar 2003.  Nánari upplýsingar um framangreint er að finna á vefsíðu Aðflutningsgjöld á vef tollstjóra.

 

20. janúar 2003

Tollstjórinn í Reykjavík

 

Til baka