Tilkynning nr. 3/2003 um breytingar á sviði tollamála

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 3/2003 um breytingar á sviði tollamála

04.04.2003

Vakin er athygli á eftirtöldum breytingum á sviði tollamála:

  1. Auglýsing um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á sjávar- og fiskeldisafurðum frá Kína
     
    Gildistaka
    Þann 14. febrúar sl. tók gildi auglýsing nr. 86/2003, um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á sjávar- og fiskeldisafurðum frá Kína.  Frá sama tíma féll úr gildi auglýsing nr. 706/2002, um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á sjávarafurðum frá Kína.  
     
    Helstu ákvæði
    Samkvæmt auglýsingunni er af heilbrigðisástæðum bannað að flytja inn sjávar- og fiskeldisafurðir frá Kína sem nota á til manneldis eða sem dýrafóður.  Þrátt fyrir bannið er heimilt að flytja inn eftirtaldar sjávarafurðir sem eru ætlaðar til manneldis eða dýrafóðurs: 
     
    • Fiskafurðir, en þó ekki fiskeldisafurðir, ál eða rækju sem ekki er beitt í Atlantshafi.
    • Rækjur sem veiddar eru í Atlantshafi og hafa ekki hlotið neina aðra meðferð en frystingu og pökkun í endanlegar umbúðir á vinnsluskipi og landað beint á Evrópska efnahagssvæðinu.  

    Einnig er heimilt að flytja inn eftirtaldar sjávarafurðir sem eru ætlaðar til manneldis eða dýrafóðurs, að því tilskyldu að gerðar séu prófanir til að ganga úr skugga um að vörurnar séu ekki skaðlegar heilsu manna:

    • Ferskvatnshumar.
    • Surimi sem framleitt er úr fiskafurðum sem innflutningur er heimill á skv. framangreindu.

    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

  2. Reglugerð um úthlutun á tollkvótum
     
    Gildistaka
    Þann 21. febrúar sl. tók gildi reglugerð nr. 108/2003 um (4.) breytingu á reglugerð nr. 679/2002 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti.
     
    Helstu breytingar
    Með breytingunni voru gerðar breytingar á verð- og magntolli, vegna innflutnings á gulrótum og næpum í tollskrárnúmeri 0706.1000 á tímabilinu frá 24. febrúar sl. til 30. júní 2003.  
     
    Sjá nánar í B-deild Stjórnartíðinda.
     
  3. Auglýsing um bann við innflutningi frá Hollandi vegna Avian Influensu eða fuglaflensu 
     
    Gildistaka
    Þann 7. mars sl. tók gildi auglýsing nr. 167/2003, um bann við innflutningi frá Hollandi vegna Avian Influensu eða fuglaflensu.  
     
    Helstu ákvæði
    Samkvæmt auglýsingunni hefur komið upp s.k. Avian Influensa í Hollandi sem er skæður fuglasjúkdómur sem borist getur í menn og aldrei hefur greinst á Íslandi.  Vegna þessa hefur verið sett bann við innflutningi til landsins á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Hollandi.
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     
  4. Lög um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
     
    Gildistaka
    Þann 28. mars sl. tóku gildi lög nr. 19/2003, um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.  
     
    Helstu ákvæði
    Með gildistöku laganna voru gerðar eftirfarandi breytingar á 4. gr. laganna, er varðar vörugjald á nánar tilgreindum vörum: 
    • Eftirtaldar vörur bera 13% vörugjald:
      • Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd.
      • Grindur með hreyfli fyrir vélknúin ökutæki.
      • Yfirbyggingar, þar með talin ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
      • Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar.
      • Dráttarbifreiðar fyrir festivagna og sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
      • Ökutæki, sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
      • Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
      • Fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki 40 ára og eldri.
    • Ákvæði 4. töluliðar fellur brott.
       
    Með gildistöku laganna hefur vörugjald af liðum a-d hér að framan lækkað úr 15% í 13% en vörugjald af liðum e-g hins vegar lækkað úr 20% í 13%.  Þá hefur nýjum lið verið bætt inn í lögin varðandi fornbíla undir lið h og bera þeir nú 13% vörugjald.
      
    Þá er gerð breyting á 2. mgr. 5. gr. laganna um vörugjald af nánar tilgreindum ökutækjum, þar sem við bætist nýr töluliður (8. töluliður) þess efnis að vörugjald af bifreiðum sem eru sérstaklega útbúnar og notaðar til líkflutninga skuli vera 10% fyrir flokk I með sprengirými aflvélar 0-2.000 en 13% fyrir flokk II með sprengirými aflvélar yfir 2.000.
     
    Nánar tiltekið þá hafa gjaldflokkar í tölvukerfi tollstjóra, Tollakerfi, svo kölluð MM 15% og MT 20% vörugjöld, fallið niður og MU 13% vörugjald tekið við í þeirra stað og leggst það á öll þau sömu tollskrárnúmer og áður báru MM og MT gjöld.  MX gjald lækkar því úr 15% í 13%.  Lækkun á MX gjaldi og MU gjald tók gildi 29. mars sl. í Tollakerfi.  Breytingarnar taka til allra gjaldskyldra vara sem ótollafgreiddar voru við gildistöku laganna.  Uppfærða tollskrárlykla til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði er að finna á slóðinni: http://www.tollur.is/tollur/smttoll/tollskra/Tollsklyklar.htm
        
  5. Lög um breytingu á lögum um úrvinnslugjald og reglugerð um úrvinnslugjald
     
    Gildistaka
    Þann 12. mars sl. gengu í gildi lög nr. 8/2003, um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.  Þann 31. mars sl. tók gildi reglugerð nr. 227/2003 um úrvinnslugjald.  
     
    Helstu ákvæði
    Um er að ræða lítilsháttar breytingu á tollskrárnúmerum í viðauka II við lögin auk gildistökuákvæðis varðandi úrvinnslugjald á bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi og vísast nánar til laganna hvað það varðar.
     
    Sjá nánar A-deild Stjórnartíðinda.
     
    Reglugerðin er sett á grundvelli laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.  Frá og með gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð nr. 578/2000, um álagningu spilliefnagjalds, með síðari breytingum.  Reglugerðin tekur á því hvaða vörur séu gjaldskyldar, en það eru m.a. vörur sem fluttar eru til landsins.  Úrvinnslugjald skal leggja á vöruflokka, á nýjar og notaðar vörur, eins og nánar er kveðið á um í viðaukum með lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald að undanskildu tollskrárnúmeri 2710.1920. Við flokkun til gjaldskyldu skal fylgt flokkunarreglum tollalaga nr. 55/1987. Greiða skal úrvinnslugjald af ökutækjum eins og nánar er mælt fyrir um í IV. kafla reglugerðarinnar.  
     
    Skattstjórar og innlendir framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun framleiðsluvöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga. Skattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga. Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.
     
    Þá er í 2. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að gjaldstofn úrvinnslugjalds skuli miðast við stykkjatölu eða þyngd í kílógrömmum hinnar gjaldskyldu vöru ásamt smásöluumbúðum. 
     
    Gjaldskyldir aðilar samkvæmt 3. gr. eru m.a. allir þeir sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur, samkvæmt lögum um úrvinnslugjald, til endursölu eða eigin nota. 
     
    Tollstjórar skulu annast álagningu og innheimtu gjalds af gjaldskyldum innfluttum vörum og skal það innheimt með aðflutningsgjöldum. Skattstjórar annast álagningu gjalds vegna innlendrar framleiðslu sem tollstjórar innheimta. Ríkisskattstjóri annast álagningu úrvinnslugjalds af ökutækjum.
     
    Hvert uppgjörstímabil vegna innfluttrar vöru, er tveir mánuðir.  Gjalddagi hvers tímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.  Forsenda fyrir framan greindum sérstökum greiðslufresti úrvinnslugjalds er að innflytjandi sé skráður úrvinnslugjaldsskyldur hjá skattstjóra.  Innflytjendur sem flytja vörur til landsins til endursölu skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjald­skyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu.  Innflytjendur sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota, skulu greiða úrvinnslugjald við tollafgreiðslu. Um greiðslufrest úrvinnslugjalds vegna innfluttrar vöru fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, með síðari breytingum.
     
    Varðandi úrvinnslu- og skilagjald á ökutæki auk nánari útlistunar á reglugerðinni vísast til umfjöllunar um lög um úrvinnslugjald í tilkynningu frá tollstjóra nr. 1/2003 auk B-deildar Stjórnartíðinda.  Þess skal þó getið að ákvæði um að bifreiðar sem undanþegnar eru bifreiðagjaldi séu jafnframt gjaldskyldar kemur ekki til framkvæmdar fyrr en 1. júlí 2003.
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     

4. apríl 2003

Tollstjórinn í Reykjavík

Til baka