Tilkynning nr. 4/2003 um breytingar á sviði tollamála

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 4/2003 um breytingar á sviði tollamála

05.05.2003

Vakin er athygli á eftirtöldum breytingum á sviði tollamála

  1. Lög um breytingu á tollalögum
      
    Gildistaka
    Þann 3. apríl sl. tóku gildi lög nr. 32/2003, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.  
     
    Þann 10. apríl sl. tóku gildi lög nr. 80/2003, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.  
     
    Helstu ákvæði
    Eftir breytingu laga nr. 32/2003, hefur nýrri aðaltollhöfn í Kópavogi verið bætt við í upptalningu 1. mgr. 28. gr. tollalaga.
     
    Við breytingu laga nr. 80/2003, hefur nýjum tölulið verið bætt við 6. gr. laganna um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu tolla í nánar greindum tilvikum.  Vakin er athygli á því að með breytingunni verður röskun á númeraröðun töluliða í ákvæðinu þar sem 9. töluliður kemur í stað töluliðar nr. 9 sem er til fyrir og varðar vélar, vélahluta og varahluti til vinnslu á innlendum framleiðsluvörum.  Núverandi töluliðir nr. 10 til 12 verða því eftir breytinguna nr. 11 til 13.  Nýi töluliðurinn orðast nú svo:
     
     
    ,,Af hráefni, efnivörum og hlutum sem bera magntoll (A1-tollur) samkvæmt viðauka I við lög þessi og ætluð eru í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur. Ef aðvinnsla sem á sér stað hér á landi er óveruleg, svo sem pökkun, umpökkun, átöppun eða blöndun, telst framleiðsluvara ekki vera innlend í skilningi þessa töluliðar.”  
     
     
    Eftir breytinguna verður því heimilt að lækka, fella niður eða endurgreiða toll af hráefni, efnivörum og hlutum sem bera magntoll samkvæmt viðaukum við tollalögin að uppfylltum skilyrðum.  Niðurfellingarheimildin tekur jafnframt til umbúða fyrir framangreindar vörur.  Þá er gerð breyting á 2. mgr. greinarinnar er lýtur að heimild landbúnaðarráðuneytis til setningar reglugerðar með nánari stjórnvaldsfyrirmælum samkvæmt þessum lið.
     
    Sjá nánar A-deild Stjórnartíðinda.
      
  2. Reglugerð um úthlutun á tollkvótum
     
    Gildistaka
    Þann 7. apríl sl. tók gildi reglugerð nr. 243/2003 um (5.) breytingu á reglugerð nr. 679/2002 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti.  
     
    Helstu breytingar
    Breytingar voru gerðar vegna innflutnings á hvítkáli í tollskrárnúmeri 0704.9001 á tímabilinu frá 7. apríl sl. til 30. júní n.k.  
     
    Sjá nánar í B-deild Stjórnartíðinda.
      
  3. Lög um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum
     
    Gildistaka
    Þann 1. maí sl. tóku gildi lög nr. 20/2003 um um breytingu á lögum nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.
     
    Helstu ákvæði
    Með gildistöku laganna verður GC-gjald óbreytt en eftirfarandi breytingar verða á skilagjöldum í 5. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna:
     
    GB-gjald hækkar úr 10,23 kr/stk í 10,63 kr/stk
    GD-gjald hækkar úr  9,43 kr/stk í  9,73 kr/stk
    GE-gjald hækkar úr  8,83 kr/stk í  9,03 kr/stk
    GF-gjald hækkar úr  8,83 kr/stk í  9,03 kr/stk
    GG-gjald hækkar úr  7,55 kr/stk í  7,59 kr/stk 
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     
  4. Lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum
     
    Gildistaka
    Þann 10. apríl sl. tóku gildi lög nr. 82/2003, um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. 
     
    Helstu ákvæði
    Með breytingunni kemur ný grein, 85. gr. A, á eftir 85. gr. laganna, þess efnis að landbúnaðarráðherra sé heimilt að greiða verðjöfnun við útflutning fullunninna vara sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni. Verðjöfnun skal vera jöfn mismun á innlendu viðmiðunarverði og erlendu viðmiðunarverði hverrar tegundar hráefnis sem notað er við framleiðslu vörunnar. Greiðslur miðast við heimildir fjárlaga hverju sinni.  
     
    Landbúnaðarráðherra gefur út reglugerð þar sem tilgreind skulu þau tollskrárnúmer sem heimilt er að greiða verðjöfnun fyrir, þær hráefnistegundir sem heimilt er að verðjafna, viðmiðunarverð innlendra landbúnaðarhráefna, erlend viðmiðunarverð sömu hráefna og nánari skilyrði verðjöfnunar. Í henni skal jafnframt kveðið á um tilhögun greiðslu og heimild ráðherra til að fresta greiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni.
     
    Sækja skal um verðjöfnun til landbúnaðarráðuneytis. Tollstjórinn í Reykjavík annast greiðslu verðjöfnunar að uppfylltum skilyrðum reglugerðar.
     
  5. Lög um breytingu á lögum um virðisaukaskatt
     
    Gildistaka
    Þann 10. apríl sl. tóku gildi lög nr. 77/2003, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.  
     
    Helstu ákvæði
    Með breytingunni er framlengd heimild til endurgreiðslu 2/3 þess hluta virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða til 31. desember 2005, eða um tvö ár frá því sem áður var.
     
  6. Reglugerð um breytingu á reglugerð um eftirlit með fóðri
     
    Gildistaka
    Þann 15. apríl sl. tók gildi reglugerð nr. 264/2003 um (8.) breytingu á reglugerð nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri, ásamt síðari breytingum.  
     
    Helstu ákvæði
    Eftir breytingu skal m.a. banna innflutning vara sem eftirlitið leiðir í ljós að standast ekki tilskildar kröfur og fyrirskipa endursendingu þeirra eftir að lögbæru yfirvaldi í framleiðslulandi hefur verið tilkynnt þar um. Tilkynna skal Eftirlitsstofnun EFTA og aðildarríkjum EES-svæðisins þegar í stað um að vörunum hafi verið hafnað og tilgreina þau brot sem hafa komið í ljós.
     
    Þrátt fyrir framangreint getur aðfangaeftirlitið heimilað aðgerðir af þessu tilefni.
     
    Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
     
  7. Lög um breytingu á lögum um tóbaksvarnir
     
    Þann 3. apríl sl. tóku gildi lög nr. 24/2003, um breytingu á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002.  Með gildistöku laganna verða m.a. breytingar á 8. gr. þeirra þess efnis að tvær nýjar málsgreinar, koma inn í ákvæðið sem 8. og 9. mgr., og orðast svo:
     
     
    ,,Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks gefi upplýsingar um innihald vörunnar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.
     
     
    Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks leggi fram sýnishorn af vörunni eða geri prófanir sem eru nauðsynlegar til þess að meta eiginleika og áhrif hennar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.”
     
    Ætlast er til þess að tóbaksframleiðendur standi straum af kostnaði við mælingar og prófanir samkvæmt framangreindu, svo og við upplýsingar og prófanir.

 

5. maí 2003

Tollstjórinn í Reykjavík
 

Til baka