Tilkynning nr. 5/2003 um breytingar á sviði tollamála

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 5/2003 um breytingar á sviði tollamála

25.06.2003

Vakin er athygli á eftirtöldum breytingum á sviði tollamála

 1. Reglugerð um hunang 
   
  Gildistaka
  Þann 30. apríl sl. tók gildi reglugerð nr. 288/2003, um hunang.
   
  Helstu ákvæði
  Reglugerðin gildir um hunang sem skilgreint er í 2. gr. reglugerðarinnar en þó ekki um hunang sem ætlað er til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.  Innlendir framleiðendur eða innflytjendur eru ábyrgir fyrir því að það hunang sem um getur sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 2. Auglýsing um bann við innflutningi frá Belgíu, Hollandi og Þýskalandi vegna Avian Influensu eða fuglaflensu
   
  Vakin er athygli á því að enn er í gildi bann við innflutningi frá Belgíu, Hollandi og Þýskalandi vegna Avian Influensu eða fuglaflensu.
   
 3. Reglugerð um breytingu á reglugerð um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla
   
  Gildistaka
  Þann 20. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 352/2003, um breytingu á reglugerð nr. 588/1993, um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla.
   
  Helstu ákvæði
  Gerðar eru breytingar á viðauka I við reglugerðina, um flokksheiti hráefna.  Innlendur framleiðandi og innflytjandi eða umboðsaðili ef um innflutta vöru er að ræða, er ábyrgur fyrir því að vörutegundir sem hér eru á markaði séu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 4. Reglugerð um endurgreiðslu almenns og sérstaks vörugjalds af bensíni til sendimanna erlendra ríkja
   
  Gildistaka
  Þann 9. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 327/2003 um endurgreiðslu almenns og sérstaks vörugjalds af bensíni til sendimanna erlendra ríkja.
   
  Helstu ákvæði
  Samkvæmt reglugerðinni skulu erlend sendiráð og sendierindrekar (diploma agents) fá endurgreitt almennt og sérstakt vörugjald af bensíni vegna bifreiða í þeirra eigu.  Til þess að njóta endurgreiðslu verður bifreið að vera á sérstökum skráningarmerkjum fyrir ökutæki erlendra sendiráða og erlendra sendiráðsmanna, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 78/1997, um skráningu ökutækja.  Umsókn um endurgreiðslu skal beina til utanríkisráðuneytisins.  
   
 5. Reglugerð um sykur og sykurvörur
   
  Gildistaka
  Þann 30. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 366/2003 um sykur og sykurvörur.
   
  Helstu ákvæði
  Frá og með gildistöku reglugerðarinnar féll úr gildi reglugerð nr. 426/1995 um sykur og sykurvörur.  Reglugerðin gildir um sykur og sykurvörur sem nánar eru skilgreindar í viðauka reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. Innlendir framleiðendur eða innflytjendur eru ábyrgir fyrir því að þær vörur sem fram koma í viðauka I með reglugerðinni séu í samræmi við ákvæði hennar.
   
 6. Reglugerðir um úthlutun á tollkvótum
   
  Gildistaka og helstu ákvæði
  Þann 30. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 373/2003, um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á nautgripa-, svína-, alifugla- og hreindýrakjöti.  Reglugerðin gildir um vörur í eftirtöldum vöruliðum í tollskrá:  0202, 0203, 0207, 0208 og 0210 á tímabilinu frá og með 1. júlí til og með 30. júní 2004.
   
  Þann 30. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 374/2003, um (1.) breytingu á reglugerð nr. 858/2002 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á blómum, trjám o.fl.  Reglugerðin gildir um tollnúmer 0602.9095 Aðrar pottaplöntur til og með 1 m á hæð og tollnúmer 0603.1009 Annars (Afskorin blóm) á tímabilinu frá og með 1. júlí til og með 31. desember 2003. 
   
  Þann 30. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 375/2003, um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á smjöri og ostum.  Reglugerðin gildir um tollnúmer 0405.xxxx Smjör og önnur fita og tollnúmer 0406.1000, 2000, 3000, 4000 og 9000 (ostur og ysingur) á tímabilinu frá og með 1. júlí til og með 30. júní 2004. 
   
  Þann 30. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 376/2003, um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á unnum kjötvörum.  Reglugerðin gildir um kjötvörur úr vörulið 1602 í tollskrá á tímabilinu frá og með 1. júlí til og með 30. júní 2004.
   
  Þann 11. júní sl. tók gildi reglugerð nr. 423/2003, um (6.) breytingu á reglugerð nr. 679/2002 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti.  Reglugerðin gildir um vörur úr tollnúmerum 0701.9000 Kartöflur, bökunar, 65 mm og stærri og Kartöflur, aðrar á tímabilinu frá 16. maí til 30. júní n.k.
   
  Þann 23. júní sl. tók gildi reglugerð nr. 444/2003 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti.  Reglugerðin gildir um kartöflur, blaðlauk, blómkál, hvítkál, rauðkál, kínakál, spergilkál, gulrætur og næpur, gulrófur, rauðrófur, selju og sveppi.  Reglugerðin gildir til og með 30. september n.k.
   
  Þann 23. júní sl. tók gildi reglugerð nr. 445/2003 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á soðnum eggjum og eggjarauðum.  Reglugerðin gildir um vörur í tollnúmerum 0408.1900 og 0408.9900 á tímabilinu frá 1. júlí sl. til og með 31. desember n.k.
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 7. Tilkynning um flutningsjöfnunargjald á olíuvörum
   
  Þann 30. maí sl. gaf Samkeppnisstofnun frá sér tilkynningu nr. 383/2003, um breytingu á flutningsjöfnunargjaldi á olíuvörum, frá og með 1. júní sl., sem hér segir:
   
  Bifreiðabensín 0,40 kr. á lítra
  Gasolía 0,66 kr. á lítra
  Aðrar olíur og blöndur til brennslu 1,00 kr. á kg
  Flugvélabensín 0,75 kr. á lítra
  Flugsteinolía (þotueldsneyti) 0,10 kr. á lítra

  Flutningsjöfnunargjaldið innheimtist með aðflutningsgjöldum miðað við innflutt móttekið magn.  Tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur annast innheimtu gjaldsins.

 8. Auglýsing um flutningsjöfnunargjald á sementi
   
  Þann 30. maí sl. tók gildi auglýsing nr. 387/2003, um flutningsjöfnunargjald á sementi.  Frá og með gildistöku auglýsingarinnar fellur úr gildi auglýsing nr. 195/2002, sama efnis.  
   
  Samkvæmt auglýsingunni skal flutningsjöfnunargjald af hverju tonni sements vera kr. 1.560,00 frá 1. júní 2003 þar til annað verður ákveðið.  Gjaldið skal reikna og greiða á hvert selt tonn af sementi.  Innlendir framleiðendur og innflytjendur, sem stunda endursölu á sementi á minnst tveimur verslunarstöðum sem jafnframt eru aðaltollhafnir, skulu greiða gjaldið til flutningsjöfnunarsjóðs sements á sölu í hverjum mánuði eigi síðar en á síðasta virka degi að tveimur mánuðum liðnum frá lokum sölumánaðar.  Flutningsjöfnunargjald af öðru innfluttu sementi skal innheimt með aðflutningsgjöldum.  Tollstjórar annast innheimtuna.
   

 9. Reglugerð um breytingu á reglugerð um notkun erlendra ökutækja
   
  Gildistaka
  Þann 30. maí sl. tók gildi reglugerð nr. 391/2003, um breytingu á reglugerð nr. 267/1993, um notkun erlendra ökutækja.  
   
  Helstu breytingar
  Með gildistöku reglugerðarinnar er gerð orðalagsbreyting á 4. gr. , sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 96/1996, og orðast hún svo eftir breytinguna (viðbætur við eldra ákvæði eru undirstrikaðar):
   
   
  ,,Ökutækið skal vátryggt ábyrgðartryggingu samkvæmt ákvæðum umferðarlaga.
   
  Litið skal svo á að vátryggingarskyldu sé fullnægt að því er varðar ökutæki sem skráð eru í ríkjum sem talin eru upp í viðauka I. Þetta á þó ekki við um ökutæki, sem nefnd eru í viðauka II. 
   
  Vegna annarra ökutækja en nefnd eru í 1. málslið 2. mgr. skal ökumaður (umráðamaður) hafa undir höndum alþjóðlegt vátryggingarkort fyrir ökutæki ("grænt kort") eða staðfestingu vátryggingafélags með starfsleyfi hér á landi. Skulu þessi gögn bera með sér, að lögboðin ábyrgðartrygging sé í gildi, og skal vátryggingin gilda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA).
   
  Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. ábyrgjast að ökutæki sem skráð er erlendis en hér er notað um stundarsakir sé vátryggt lögmæltri ábyrgðartryggingu ef önnur vátrygging er ekki fyrir hendi enda hafi ökumaður (umráðamaður) ökutækisins við innflutning þess lagt fram alþjóðlegt vátryggingarkort fyrir ökutæki ("grænt kort") sem út er gefið í samræmi við reglur þær um alþjóðlegar bifreiðatryggingar sem undirnefnd um vegflutninga í innanlandsflutninganefnd efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu hefur mælt með.
   
  Eftirlit með því að erlent ökutæki, sem ekið er hér á landi, uppfylli kröfur reglugerðar þessarar, þ.m.t. hvort í gildi sé ábyrgðartrygging vegna þess, skal fyrst og fremst byggjast á úrtakseftirliti. Skal slíkt eftirlit fara fram bæði við innflutning ökutækisins og eftir að notkun þess er hafin. Ökutæki, sem skráð eru í ríkjum er nefnd eru í viðauka I, eru þó við komu til landsins undanþegin eftirliti með vátryggingarskyldu.
   

   
  Þá eru gerðar breytingar á viðauka I með reglugerðinni á þann veg að bætt er við nokkrum ríkjum auk þess sem þjóðernismerki ríkja koma fram í sviga aftan við.  Ökutæki frá eftirtöldum ríkjum (þjóðernismerki þeirra eru tilgreind í sviga) teljast  nú hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu við komu til landsins og þarf ekki að framvísa grænu korti því til staðfestingar, sbr. þó undantekningar í viðauka II við reglugerðina.
   
  Austurríki (A)
  Belgía (B)
  Danmörk (DK) ásamt Færeyjum (FR)
  Finnland (FIN)
  Frakkland (F) ásamt Mónakó (MC)
  Grikkland (GR)
  Holland (NL)
  Írland (IRL)
  Ítalía (I) ásamt Páfagarði og San Marínó (RSM)
  Lúxemborg (L)
  Króatía (HR)
  Kýpur (CY)
  Noregur (N)
  Portúgal (P)

  Slóvakía (SK)
  Slóvenía (SLO)
  Spánn (E)
  Sviss (CH) ásamt Liechtenstein (FL)
  Stóra-Bretland og Norður Írland (GB)
  ásamt Alderney (GBA), Guernsey (GBG), Jersey (GBJ), Mön (GBM) og Gíbraltar(GBZ)
  Svíþjóð (S)
  Tékkland (CZ)
  Ungverjaland (H)
  Þýskaland (D)
   

 10. Reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis
   
  Gildistaka
  Þann 20. júní sl. tók gildi reglugerð nr. 431/2003, um innflutning gæludýra og hundasæðis.  
   
  Helstu ákvæði
  Markmið reglugerðarinnar er að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins við innflutning á gæludýrum og hundasæði.  Innflutningur á gæludýrum og hundasæði er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra og uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar.  Innflytjandi skal sjá til þess að þau vottorð sem krafist er fylgi dýrinu/hundasæðinu við innflutning og ber hann allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða.  Öllum gæludýrum og hundasæði sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal fylgja heilbrigðis- og upprunavottorð.  Nánar er fjallað um vottorð í 5. gr. reglugerðarinnar.  Innflytjandi ber ábyrgð á því að öll tilskilin vottorð hafi borist yfirdýralækni viku fyrir áætlaðan komudag dýrs eða hundasæðis til landsins.  Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr og hundasæði til Íslands um tiltekna innflutningsstaði.  Innflutningur á gæludýrum og hundasæði með skipum er óheimill.  Eftir að innflytjandi hefur fengið innflutningsleyfi, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar, skal hann sjálfur panta rými fyrir dýrið í einangrunarstöð.  
   
   Óheimilt er að flytja til landsins:

  • Hvolpafullar tíkur.
  • Kettlingafullar læður.
  • Tíkur með hvolpa á spena.
  • Læður með kettlinga á spena.
  • Dýr sem hafa undirgengist aðgerðir fyrir innflutning og þarfnast eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi.
  • Hunda og sæði hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim:
   1. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier.
   2. Fila Brasileiro.
   3. Toso Inu.
   4. Dogo Argentino.
  • Blendinga af úlfum og hundum, svo og sæði blendinga af úlfum og hundum.

  Óheimilt er að flytja til landsins ófrosið hundasæði.  Nánari skilyrði við innflutning hundasæðis eru í III. kafla reglugerðarinnar. 
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 11. Reglugerð um breytingu á reglugerð um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur
   
  Gildistaka
  Þann 20. júní sl. tók gildi reglugerð nr. 437/2003 um breytingu á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.  
   
  Helstu breytingar
  Samkvæmt reglugerðinni fellur 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar um innheimtu, uppgjörstímabil, gjalddaga o.fl., brott og verður eftir breytinguna svo hljóðandi:
   
   
  ,,Skilagjald og umsýsluþóknun af innlendum drykkjarvörum reiknast við sölu eða afhendingu þeirra frá framleiðanda, og skiptir þá ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram.”
   

  25. júní 2003

  Tollstjórinn í Reykjavík

Til baka