Hert eftirlit í Leifsstöð og nýjar reglur um handfarangur

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Hert eftirlit í Leifsstöð og nýjar reglur um handfarangur

15.08.2006

Í frétt um endurskoðaðar reglur vegna öryggiseftirlits í Leifsstöð sem birtar hafa verið á vef Icelandair er haft eftir sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli Jóhanni R. Benediktssyni að verið sé milda þær ströngu reglur sem gilt hafa um flugfarþega síðustu daga.

Í reglunum er mælst til að farþegar komi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eigi síðar en tveimur tímum fyrir brottför.

Þar kemur einnig fram að:

Enginn farþegi megi taka með í handfarangri vökva svo sem vatn, gosdrykki, ávaxtadrykki, mjólkurvörur, áfengi, ilmkrem, snyrtivörur í fljótandi formi og svo framvegis. Við vopnaleit þurfi allir farþegar að fara úr skóm sem verða gegnumlýstir.

Þeir sem séu á leið til Bandaríkjanna þurfa að undirgangast aukið eftirlit, meðal annars fær fólk ekki afhenta drykki sem það kaupir í flugstöðinni fyrr en við brottfararhlið. Fólk sem ferðast með ungabörn má þó taka með sér mat og mjólk fyrir börnin, þeir sem þurfa á lífsnauðsynlegum lyfjum að halda mega taka þau með í handfarangri.

Mælst er til að farþegar taki eins lítinn handfarangur með sér og kostur er, taki fartölvur og önnur rafmagnstæki úr handfarangri áður en farið er í gegnum vopnaleit. Taki alla málmhluti af sér og úr vösum, og setji í þar tilgerða bakka áður en gengið er í gegnum málmleitarhliðið.

Fólki er bent á að fylgjast með breytingum á þessum reglum á vef Icelandair eða Leifsstöðvar.

 

Til baka