Tollstjórinn í Reykjavík sýknaður af kröfu um endurgreiðslu dráttarvaxta

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollstjórinn í Reykjavík sýknaður af kröfu um endurgreiðslu dráttarvaxta

04.07.2008

Nýlega var tollstjóraembættið í Reykjavík sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfu um endurgreiðslu dráttarvaxta sem féllu á kröfu vegna vanskila. Stefnandi var einn erfingja dánarbús en leyfi hafði verið veitt til að skipta dánarbúinu einkaskiptum. Erfingjar gengust því undir sjálfsskuldarábyrgð á greiðslu opinberra gjalda búsins, sbr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Skattur var lagður á dánarbúið samkvæmt framtali. Tilkynning um álagningu og sundurliðun gjalddaga var send á lögheimili dánarbúsins(skattaðila). Skatturinn var ekki greiddur á gjalddaga. Tollstjóraembættið sendi tilkynningu til erfingja um vanskil nokkru síðar. Erfingjar greiddu í kjölfar þess fjárhæð sem samsvaraði höfuðstól kröfunnar. Greiðslunni var ráðstafað til greiðslu áfallinna dráttarvaxta og hluta höfuðstólsins. Eftirstöðvar skuldarinnar voru síðar greiddar með fyrirvara um réttmæti þess að leggja dráttarvexti á kröfuna.

Stefnandi gerði kröfu um endurgreiðslu dráttarvaxta. Stefnandi hélt því fram að skattayfirvöldum hefði borið að senda erfingjum dánarbúsins tilkynningu um álagningu skattsins. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi ekki verið heimilt að leggja dráttarvexti á kröfuna.

Dómurinn féllst ekki á sjónarmið stefnanda um sérstaka tilkynningarskyldu innheimtumanns ríkissjóðs eða skattyfirvalda gagnvart erfingjum sem báru lögboðna sjálfsskuldarábyrgð á greiðslu skattsins. Álagningin hefði verið réttilega send á lögheimili skattaðilans þ.e. dánarbúsins. Þar sem lögboðið væri að leggja dráttarvexti á vangreidda skatta frá gjalddögum þeirra var heldur ekki fallist á að óheimilt væri að leggja dráttarvexti á kröfuna eða að það bryti gegn ákvæðum stjórnsýslulaga.

 Dómurinn er hér

Til baka