Hækkun heimildar ferðamanna og farmanna til tollfrjáls innflutnings 1. mars 2013

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Hækkun heimildar ferðamanna og farmanna til tollfrjáls innflutnings 1. mars 2013

28.02.2013

Gerðar hafa verið breytingar á tollalögum sem hækka heimildir ferða- og farmanna búsettra á Íslandi til að flytja inn vörur tollfrjálst.  Breytingarnar taka gildi þann 1. mars 2013.  Í þeim felst m.a. að heimild hvers ferðamanns til tollfrjáls innflutnings hækkar úr 65.000 kr. í kr. 88.000 kr. og að hámarksverðmæti hvers hlutar hækkar úr  32.500 kr. í 44.000 kr.  Heimild ferða- og farmanna til að flytja inn tollfrjáls matvæli mun hækka úr 18.500 kr. í 25.000 kr. en matvæli eru talin með öðrum varningi og teljast því inn í heildarheimildina sem eftir breytingar verður að fjárhæð 88.000 kr. eins og áður segir.  Með breytingunum munu gjafafríðindi hækka úr 10.000 í 13.500.

Nánari upplýsingar:

Fjallað er um ýmis tollfríðindi í 6. gr. tollalaga nr. 88/2005.  Ferðamenn, sem eru búsettir hér á landi, mega (skv. b-lið, 2.tl. 1. mgr. 6. gr.) hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi tollfrjálsan varning að verðmæti allt að 65.000 kr. miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 32.500 kr. og skulu börn yngri en 12 ára njóta réttinda samkvæmt þessum lið að hálfu.  Með áðurnefndri breytingu mun heimild ferðamanna hækka upp í 88.000 kr. og má einstakur hlutur vera að hámarki að verðmæti 44.000 kr. 

Þá breytast tollalögin líka að því er varðar skipverja og flugverja sem búsettir eru hér á landi.  Þessir aðilar mega í dag (skv. c-lið, 2. tl., 1. mgr. 6. gr.) flytja inn tollfrjálsar vörur eða kaupa í tollfrjálsri verslun varning að verðmæti allt að 24.000 kr. miðað við smásöluverð á innkaupsstað, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð, en 48.000 kr., hafi þeir verið lengur í ferð. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 24.000 kr.  Þessar heimildir skipverja og flugverja munu hækka þann 1. mars 2013 samkvæmt lagabreytingunni og verða 32.500 kr. fyrir skemmri ferðirnar og 65.000 kr. fyrir þær lengri og hámarksverðmæti hlutar verður  32.500 kr.

Matvæli, þ.m.t. sælgæti, sem ferðamenn og farmenn hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun eru nú tollfrjáls að verðmæti allt að 18.500 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað (skv. d-lið 2. tl., 1. mgr. 6. gr.). Þyngd matvæla skal þó að hámarki vera 3 kg.   Eftir breytinguna þann 1. mars 2013 geta ferða- og farmenn flutt inn matvæli að verðmæti allt að 25.000 kr.  Matvæli eru talin með varningi samkvæmt liðunum hér fyrir ofan sem þýðir til dæmis að ferðamaður búsettur hérlendis má, eftir að breytingin gengur í gildi, flytja inn vörur að verðmæti 88.000 kr. tollfrjálst og teljast matvæli með í þeirri tölu. 

Aðilar búsettir erlendis geta sent gjafir hingað til lands tollfrjálst eða haft með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000 kr. (skv. a-lið, 8.tl. 1. mgr. 6. gr. ). Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 10.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.  Eftir að umrædd lagbreyting tekur gildi þann 1. mars 2013 munu tollfríðindi vegna gjafa hækka og verða 13.500 kr.

Sjá tollalög nr. 88/2005

Sjá breytingar á tollfríðindum (8. gr.) - lög um breytingu á lögum um vörugjald nr. 97/1987, og tollalögum nr. 88/2005 með síðari breytingum

Til baka