Átta skipverjar staðnir að smygli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Átta skipverjar staðnir að smygli

31.07.2013

Tollverðir haldlögðu fyrr í mánuðinum talsvert magn af smyglvarningi, sem átta skipverjar á flutningaskipinu Arnarfelli  gengust við að eiga. Um var að ræða nær áttatíu lítra af áfengi  og 6.800 vindlinga. Varningurinn, sem ekki hafði verið framvísað við tollafgreiðslu, var ýmist falinn í skipinu eða utan þess þar sem það lá í höfn við Holtagarða.

Þennan umrædda dag  stöðvuðu tollverðir þrjár bifreiðar skipverja sem ekið var frá skipshlið og fannst smyglvarningur, bæði áfengi og vindlingar, í þeim öllum. Í ruslagámi við hlið skipsins fundu tollverðir einnig smyglvarning, sem tveir skipverja gengust við að eiga.

Í klefa í skipinu, sem í var geymdur björgunarbúnaður fundust þrjár stórar töskur faldar bak við búnaðinn.  Þær höfðu einnig að geyma áfengi og vindlinga. Auk alls þessa framvísuðu tveir skipverjar til viðbótar  smyglvarningi, sem þeir höfðu falið í skipinu.

Sjö af skipverjunum átta, sem hlut áttu að máli, gengu frá sektargerð á staðnum. Magn varnings í fórum hins áttunda var hins vegar það mikið að sektarfjárhæð var yfir þeim mörkum sem leyfilegt er að ganga frá á vettvangi. Var því máli því vísað áfram til rannsóknardeildar Tollstjóra.

Í aðgerðinni voru innheimtar sektir samtals að fjárhæð tæplega fimm hundruð þúsund krónur. Málið telst upplýst og veitir Tollstjóri því ekki frekari upplýsingar um það.

 

Áfengið og vindlingarnir sem tollverðir haldlögðu fyrr í mánuðinum:

Smyglvarningur

Smyglvarningur

Til baka