Sterum smyglað í tússpennum

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Sterum smyglað í tússpennum

18.09.2013

Tugir tússpenna, sem fylltir höfðu verið með steradufti, reyndust vera í póstsendingu sem tollverðir tóku til skoðunar við tolleftirlit í póstmiðstöðinni á Stórhöfða nýverið. Eftir að sendingin, sem kom frá Hong Kong, hafði verið gegnumlýst þótti ástæða til að athuga hana nánar. Komu þá í ljós plastpokar með steradufti sem komið hafði verið fyrir í tússpennunum, öllum nema sex í sendingunni, sem stíluð var á íslenskan einstakling. Að auki voru í pakkanum talsvert af umbúðum, sem sýnilega voru ætlaðar undir steratöflur í sölu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók málið til rannsóknar í framhaldinu og fór meðal annars í húsleit í Kópavogi. Þar var lagt hald á töluvert magn af sterum, allnokkuð af skotfærum og búnað til lyfjaframleiðslu. Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn á staðnum og yfirheyrður vegna málsins, sem telst nú upplýst. Tollstjóri veitir því ekki frekari upplýsingar.

 

 Sterar faldir í tússpennum
Tússpenni með sterum.

Sterar faldir í tússpennum
Sterarnir voru í plastpokum, sem komið hafði verið fyrir í tússpennunum.

Sterar faldir í tússpennum
Talsvert magn umbúða fyrir stera var einnig í sendingunni.

Til baka