Stöðvuðu meintar eftirlíkingar af Nike-skóm

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Stöðvuðu meintar eftirlíkingar af Nike-skóm

03.04.2014

Tollverðir stöðvuðu nýlega fjórar sendingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem taldar voru innihalda eftirlíkingar af Nike-skóm. Um var að ræða hraðsendingar sem komu frá Kína en það var einstaklingur sem stóð að innflutningnum. Sendingarnar voru stöðvaðar samkvæmt heimild í tollalögum vegna gruns um að þær innihéldu falsaðar vörur og var rétthafa Nike-merkisins tilkynnt um málið í kjölfarið. Rétthafi hefur kært málið til lögreglunnar á Suðurnesjum sem annast rannsókn þess.

Embætti tollstjóra tekur nú þátt í alþjóðlegu verkefni sem beinist gegn vörufölsun og tengslum við fjölþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi. Verkefnið ber yfirskriftina: „Falsanir: ekki kaupa hlut í skipulagðri glæpastarfsemi" og er á vegum fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Office on Drugs and Crime - UNODC)  Falsaður varningur er oft og tíðum framleiddur við ófullnægjandi aðstæður af ólöglegu vinnuafli sem ekki fær greidd mannsæmandi laun. Það er gríðarlega mikilvægur liður í baráttunni gegn vörufölsun að fólk sé meðvitað um þær afleiðingar sem þessi iðnaður hefur í för með sér því að þá eru minni líkur á að almenningur kaupi slíkar vörur og styrki þannig skipulagða glæpastarfsemi. Þá getur falsaður varningur verið hættulegur enda ekki framleiddur í samræmi við viðeigandi staðla og kröfur.

 

Miðar í skónum sem stöðvaðir voru:

Meintar eftirlíkingar af Nike skóm

Fleiri myndir

Til baka