Pöntun farmverndarinnsigla

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Pöntun farmverndarinnsigla

1. Almennt um þessar leiðbeiningar

Þessar leiðbeiningar eru ætlaðar forráðamanni farmverndar hjá fyrirtæki. Þá er átt við forráðamann fyrirtækisins eða fulltrúa hans sem undirritaði umsókn fyrirtækisins um að verða viðurkenndur farmverndaraðili og ber síðan ábyrgð á framkvæmd farmverndar hjá fyrirtækinu.

Í leiðbeiningunum er gerð grein fyrir meginatriðum vegna pöntunar og afhendingar á farmverndarinnsiglum.

2. Fyrirtæki áður búið að fá viðurkenningu sem farmverndaraðili

Til að fyrirtæki geti pantað farmverndarinnsigli þarf það áður að vera búið að fá viðurkenningu frá Skattinum sem farmverndaraðili. Forráðamaður þarf jafnframt að vera kominn með notandanafn og notkunarlykilorð til að fá aðgang að heimasvæði fyrirtækisins á umsjónarvef farmverndar.

3. Hver pantar farmverndarinnsigli?

Forráðamaður fyrirtækis, sem undirritaði umsókn um viðurkenningu sem farmverndaraðili, má panta farmverndarinnsigli handa fyrirtæki sínu.

4. Hvernig eru farmverndarinnsigli pöntuð?

Forráðamaður tengist inn á heimasvæði fyrirtækis síns á umsjónarvef farmverndar. Í vallínu velur hann Innsigli og síðan Panta innsigli. Tilgreina þarf hvernig farmverndarinnsiglin óskast afhent og fjölda farmverndarinnsigla, sem óskast keypt.

5. Hvernig eru farmverndarinnsigli afhent?

Þegar farmverndarinnsigli eru pöntuð er tilgreint hvernig þau óskast afhent.

Þegar pöntun er tilbúin til afgreiðslu er hún annað hvort send í póstkröfu eða sótt til Skattsins, Tryggvagötu 19, Reykjavík. Sá sem sækir pöntun til Skattsins þarf að hafa umboð forráðamanns fyrirtækisins til að fá farmverndarinnsiglin afhent. T.d. nægir að prenta út skjámynd af pöntuninni og skrifa þar umboðið. Þegar pöntun er sótt þarf jafnframt að framvísa gildum persónuskilríkjum. Ekki þarf að staðgreiða pöntun sem sótt er til Skattsins heldur er reikningur sendur til fyrirtækisins eftir að búið er að afhenda farmverndarinnsiglin.

6. Notkun farmverndarinnsigla

Þegar farmverndarfulltrúi innsiglar gám tiltekins fyrirtækis notar hann eitt þeirra farmverndarinnsigla sem þetta tiltekna fyrirtæki á. Upplýsingar um númer farmverndarinnsiglisins verða jafnframt skráðar á farmverndaryfirlýsingu. Þessu verður lýst nánar í leiðbeiningum um farmverndaryfirlýsingar.

ATHUGA: Fyrirtæki verður sjálft að nota farmverndarinnsigli sem það kaupir. Fyrirtæki má ekki lána eða selja öðru fyrirtæki farmverndarinnsigli sín.

7. Skemmd eða glötuð farmverndarinnsigli

Ef innsigli skemmist eða glatast þarf að hafa samband við Skattinn.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir