Leiðbeiningar með eyðublaðinu TS109 - Umsókn um leyfi til útflutnings á smásendingum í pósti án útflutningsskýrslu

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Leiðbeiningar með eyðublaðinu TS109 - Umsókn um leyfi til útflutnings á smásendingum í pósti án útflutningsskýrslu

Einfölduð gerð útflutningsskýrslna vegna smásendinga

Með tilkynningu til útflytjenda nr. 3/2005 var ákveðið að heimila útflutning á tilteknum smásendingum sem fluttar eru frá landinu með póstverslun, til einstaklinga, gegn framlagningu einfaldaðrar útflutningsskýrslu. Efni þeirrar tilkynningar er enn í gildi en í texta þessarar síðu hafa upphæðir, tilvísanir í lög og reglur og fleira verið leiðrétt í samræmi við breytingar sem orðið hafa síðan tilkynningin var gefin út.

  • Í einfaldri gerð útflutningsskýrslu felst að ekki er gerð krafa um að útflutningsskýrslu sé skilað til Tollstjóra, með hverri sendingu fyrir sig, heldur skal upplýsingum um útflutninginn skilað á tveggja mánaða fresti, eftir nánari fyrirmælum.
  • Ofangreind heimild tekur einungis til þeirra aðila (einstaklinga/lögaðila) sem stunda smásölu á vöru til útflutnings í atvinnuskyni, með póstverslun, til einstaklinga, ef söluverðmæti hverrar vörusendingar fyrir sig, er að hámarki 30.000 krónur eða minna.
  • Sækja þarf skriflega um heimild til tollafgreiðslu með þessum hætti til Tollstjóra. Umsóknareyðublaðið er hægt að nálgast hér. Tollstjóri mun tilkynna póstflutningsaðilum um þá aðila sem hlotið hafa heimild til tollafgreiðslu með einfaldari hætti.

Leyfishafi ábyrgist með undirritun sinni á umsóknareyðublað fullkomin skil á útflutningsskýrslum og að allar þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar og lögum samkvæmt.   Leyfishafi ábyrgist jafnframt að söluverðmæti hverrar vörusendingar sem flutt verður út með einfaldari hætti, sé að hámarki 30.000 ISK og að um smásölu sé að ræða til einstaklings. Leyfishafi ábyrgist einnig að gerð verði einfölduð útflutningsskýrsla fyrir hvert uppgjörstímabil eigi síðar en 15. dag næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.   Hvert uppgjörstímabil er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Leyfishafi skal hafa frumkvæði að gerð einfaldaðrar útflutningsskýrslu að loknu hverju uppgjörstímabili. Með útflutningsskýrslu skal útflytjandi geyma lista yfir útfluttar smásendingar.

Útflutningsskýrsla skal afgreidd með SMT/VEF-tollafgreiðslu uppfylli útflytjandi skilyrði til að afgreiða með þeim hætti, þ.e. hann hafi tilkynnt Hagstofu Íslands um atvinnustarfsemi sína og sé á fyrirtækjaskrá, sbr. lög nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá eða ef um einstakling er að ræða sem stunda atvinnurekstur, skal hann að minnsta kosti hafa framkvæmt 12 tollafgreiðslur í atvinnuskyni á síðustu 12 mánuðum áður en leyfi til SMT-/VEF-tollafgreiðslu er veitt, sbr. reglugerð nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, með síðari breytingum. Athygli er vakin á því að þeim sem uppfylla framangreind skilyrði er óheimilt að tollafgreiða á pappír.

Stofnun sendingarnúmers og gerð útflutningsskýrslu er um margt frábrugðin hefðbundnum útflutningi og verður það skýrt hér á eftir. Einnig er það frábrugðið að með útflutningsskýrslu þarf að fylgja listi yfir útfluttar sendingar.

Heimild fjármála- og efnahagsráðuneytis til afgreiðslu með framangreindum hætti var veitt þann 6. febrúar 2004.

Leiðbeiningar:

1. SENDINGARNÚMERUM ÚTHLUTAÐ

1.1.    FYRIRTÆKI SÆKIR UM SENDINGARNÚMER

Fyrirtæki sækir um sendingarnúmer fyrir hvert uppgjörstímabil. Þegar búið er að úthluta sendingarnúmerum, þ.e. skrá farmskrá, fyrir tiltekið uppgjörstímabil þarf Tollstjóri að senda fyrirtækinu upplýsingar um sendingarnúmerin. Senda skal beiðni um sendingarnúmer á netfangið: r.farmskra[hja]tollur.is Upplýsingar um sendingarnúmer verða send útflytjanda til baka með tölvupósti.

 

2. FARMSKRÁ OG ATRIÐI TENGD HENNI

2.1.    ALMENNT

1.   Gerð verður farmskrá fyrir hverja útflutningsskýrslu. Skýrsla verður því í stöðunni Farmskrá þegar hún kemur útfyllt inn í Tollakerfið, hvort sem það verður EDI-, VEF- eða pappírsskýrsla.

2.   Notað verði sérstakt tákn í sendingarnúmeri og verður það bókstafurinn T.

3.   Notað verði sérstakt far vegna smásendinga, SMA.

2.2.    REGLUR UM SENDINGARNÚMER

2.2.1.  TÁKN FARS

Tákn fars verður alltaf T.

2.2.2.  FAR

Far verður alltaf SMA. Búið er að stofna farið í Tollakerfinu.

2.2.3.  SENDINGARDAGSETNING

Sendingardagsetning verður alltaf síðasti dagur þess uppgjörstímabils sem útflutningsskýrslan tekur til.

 

3. ÚTFYLLING ÚTFLUTNINGSSKÝRSLU VEGNA SMÁSENDINGA

3.1.    PÓSTSENDING / ALMENN SENDING

Velja á í reit 1 Almenn sending.

3.2.    EINSTAKIR REITIR

3.2.1.  REITUR 1. SKÝRSLA. FYRRI HLUTI: MARKAÐSSVÆÐI

Hvað á að gera ef hluti sendinga fer á markaðssvæði EU og hluti á markaðssvæði EX? Hópa skal saman sendingum í reit 17a þannig að land í reit 17a ræður því hvaða markaðssvæði er valið.

3.2.2   REITUR 8. VIÐTAKANDI: LÍNA 1

Hér á alltaf að slá inn Póstverslun til einstaklinga.

3.2.2.  REITUR 8. VIÐTAKANDI: LÍNA 2

Þegar skýrsla er fyllt út á vef, er þess krafist að skráð sé í þessa línu. Hér á að skrá

Ýmsir staðir.

3.2.3.  REITUR 11. VIÐSKIPTALAND / FRAMLEIÐSLULAND

Hér dugar að nefna það land sem mest er selt til í viðkomandi uppgjöri.

3.2.4  Reitur 17a. Ákvörðunarland

Í reit 17a verður að koma fram réttur lykill ákvörðunarlands sem leiðir til þess að hópa verður saman í útflutningsskýrslu eftir lykli ákvörðunarlands. Þetta getur þýtt það að gera verður fleiri en eina tollskýrslu vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þ.e. ef ákvörðunarlönd tímabilsins eru fleiri en eitt. Gera þarf því jafnmargar útflutningsskýrslur og ákvörðunarlöndin eru mörg. Það er krafa Hagstofunnar að umræddar upplýsingar liggi fyrir.

3.2.5   REITUR 20. AFHENDINGARSKILMÁLAR

Hér skal nota “hæsta stig” afhendingarskilmála þeirra sendinga sem skýrslan tekur til. Afhendingarskilmálar verða CIF í 99% tilfella.

3.2.6   REITUR 22. MYNT OG HEILDARFJÁRHÆÐ REIKNINGS

Í reit 22 getur það gerst að tvær sendingar fari til sama viðtökulands en viðskiptalöndin séu mismunandi. Komi þetta fyrir á að nota þá mynt sem mestu verðmætin eru fólgin í, þ.e. hér á að nefna mynt þess lands sem mest er selt til í viðkomandi uppgjöri.

3.2.7     REITUR 25. FLUTNINGSMÁTI YFIR LANDAMÆRI

Hér skal skrá  lykilinn 40 .

3.2.8    Reitur 26. Viðtökunúmer

Engin viðtökunúmer verða í útflutningsskýrslum vegna smásendinga.

3.2.9     REITUR 34A. LYKILL UPPRUNALANDS

Hér skal skrá IS

3.2.10 REITUR 44. REIKNINGSNÚMER

Í reit 44 skal vísa til fjölda reikninga sem liggja að baki viðkomandi einfaldaðri útflutningsskýrslu. Auk þess skal vísa til heimildarnúmers.

3.3       SÝNISHORN AF SKÝRSLU

Sýnishorn af útflutningsskýrslu í VEF-tollafgreiðslukerfinu

Að öðru leyti þarf að koma fram vörulýsing, útflutningsdagur, útflutningsland, tollskrárnúmer, söluverð, flutningskostnaður og þyngd vöru.  Þá skal koma fram samtala söluverðs, flutningskostnaðar og þyngdar. Allir reitir útflutningsskýrslu skulu því útfylltir.

  • Sendingar skulu flokkaðar í línur í útflutningsskýrslu eftir tollflokk og viðskiptalandi, þ.e. sérstök lína fyrir hvern tollflokk og ef um fleiri en eitt ákvörðunarland/viðskiptaland er að ræða þarf jafnframt sérstaka línu fyrir hvert ákvörðunarland.
  • Leyfishafi skal halda eftir afriti reikninga vegna sölunnar og skulu þeir ávallt vera Tollstjóra aðgengilegir vegna eftirlits.
  • Á lista sem skal vera fylgiskjal útflutningsskýrslu skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram um hverja einstaka sölu; Viðskiptaland, verðmæti, númer reiknings og dagsetning hans.
  • Tollyfirvöld skulu hafa aðgang að bókhaldi fyrirtækis eða stofnunar til þess að staðreyna þær  upplýsingar sem   fram koma  í útflutningsskýrslum og öðrum tollskjölum sem henni tengjast.
  • Ekki er heimilt að tollafgreiða vörur sem seldar eru úr landi í heildsölu og ætlaðar eru til endursölu erlendis, með framangreindum hætti.
  • Tollstjóri getur synjað um tollmeðferð ef eigi er fylgt ofangreindum fyrirmælum.
  • Tollstjóri áskilur sér rétt til að afturkalla leyfi til útflutnings á smásendingum í pósti án útflutningsskýrslu, brjóti leyfishafi á einhvern hátt gegn skilyrðum þeim sem sett eru fyrir tollafgreiðslu með einfaldaðri hætti.

Kjósi leyfishafi að nýta sér ekki einfaldaða gerð útflutningsskýrslu heldur senda vörusendingu úr landi með hefðbundnum hætti þannig að sendingarnúmer myndast í tollakerfi Tollstjóra, eða viðtökunúmer í pósti er honum skylt sem útflytjanda að skila Tollstjóra útflutningsskýrslu með hefðbundnum hætti.   Um ábyrgð á skilum útflutningsskýrslu vísast að öðru leyti til tollalaga og reglna settra samkvæmt þeim.

Athygli er vakin á að tollmeðferð skv. framansögðu breytir ekki kröfu um staðfestingu tollgæslu vegna sérstakrar tollmeðferðar svo sem vegna endursendingar.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir