Leiðbeiningar með eyðublaðinu Umsókn um bindandi álit um tollflokkun vöru

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Leiðbeiningar með eyðublaðinu Umsókn um bindandi álit um tollflokkun vöru

Þetta eyðublað inniheldur virkni sem krefst notkunarAdobe Reader, forritið er frítt og mælt er með nýjustu útgáfu. Eyðublaðið virkar ekki rétt með öðrum pdf lesurum.

Skoðaðu þessa lausn ef þú lendir í vandræðum með að opna eyðublaðið.

 

Lesið eftirfarandi upplýsingar áður en umsóknin er fyllt út:

  1. Ákvörðun skattsins um bindandi tollflokkun vöru er tekin að fenginni umsókn um tollflokkun tiltekinnar vörutegundar vegna inn- eða útflutnings, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005.
  2. Ef beiðni um bindandi álit um tollflokkun vöru er augljóslega tilefnislaus er skattinum ekki skylt að verða við henni.
  3. Hver umsókn má aðeins ná til einnar vörutegundar.
  4. Bindandi álit sem út hefur verið gefið til umsækjanda gildir einungis gagnvart honum eða þeim sem kemur fram fyrir hans hönd samkvæmt umboði.
  5. Farið verður með upplýsingar sem fram koma í reit 6 sem trúnaðarmál.
  6. Óski skatturinn eftir viðbótarupplýsingum, svo sem efnagreiningu eða sérfræðiáliti, sem umsækjandi getur ekki lagt fram og afla verður frá þriðja aðila, kann kostnaður sem af því leiðir að falla á umsækjanda.
  7. Skatturinn getur óskað eftir að umsækjandi leggi fram þýðingu á skjölum vegna umsóknar án kostnaðar fyrir tollyfirvöld.
  8. Álit um bindandi tollflokkun vöru hefur ekkert gildi ef upplýsingar sem veittar hafa verið í umsókn um hana eru rangar eða villandi.
  9. Ákvörðun skattsins um tollflokkun, sbr. reit B, má kæra til yfirskattanefndar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningu ákvörðunar. Kæra skal vera skrifleg, rökstudd og studd nauðsynlegum gögnum.
  10. Frekari upplýsingar varðandi umsókn um bindandi álit um tollflokkun vöru veitir skatturinn.

Leiðbeiningar um útfyllingu reita

Reitur 1 - Umsækjandi (fullt nafn og heimilisfang)

Skylt er að fylla þennan reit út.

Með umsækjanda er átt við hvern þann, persónu eða lögaðila, sem sækir um bindandi álit um tollflokkun vöru hjá skattinum, eða sótt er um fyrir hans hönd.

Reitur 2 - Umboðsmaður eða fulltrúi (fullt nafn og heimilisfang)

Valfrjáls útfylling.

Fyllið þennan reit út ef óskað er að tilnefna umboðsmann eða fulltrúa sem leggi bindandi áliti um tollflokkun vöru fram vegna innflutnings eða útflutnings á vegum umsækjanda.

 

Reitur 3 - Tilefni umsóknar

Skylt er að fylla þennan reit út.

Ef beiðni um bindandi álit um tollflokkun vöru er augljóslega tilefnislaus er skattinum ekki skylt að verða við henni.

Hafi vara verið flutt til landsins eða tekin til tollmeðferðar skal tilgreina hér sendingarnúmer sem farmflytjandi eða póstrekandi gefur vörusendingunni.

 

Reitur 4 - Ætlað tollskrárnúmer (Valfrjáls útfylling)

Gefið til kynna í hvaða vörulið eða tollskrárnúmer umsækjandi telur að vara skuli tollflokkuð.

 

Reitur 5 - Vörulýsing (hver umsókn má einungis taka til einnar vörutegundar)

Skylt er að fylla þennan reit út.

Gefið greinargóða lýsingu á vörunni svo að hægt sé að ákvarða tollflokkun hennar samkvæmt tollskrá.

Gera skal grein fyrir samsetningu vörunnar og hvers konar einkennum sem kunna að renna stoðum undir tollflokkun hennar.

Hvers konar upplýsingar sem fyrirspyrjandi álítur trúnaðarmál skal færa í reit 6.

 

Reitur 6 - Viðskiptalegt auðkenni og viðbótarupplýsingar

Valfrjáls útfylling.

Getið hér þeirra atriða sem óskað er eftir trúnaði um, þ. á m. vörumerkis og auðkennisnúmers vöru.

Skatturinn getur ljósmyndað sýnishorn ef þurfa þykir eða óskað eftir greiningu rannsóknarstofa. Takið skýrt fram hvort slíkar myndir, rannsóknarniðurstöður eða önnur gögn sem umsækjandi hefur látið í té skuli farið með að hluta eða öllu leyti sem trúnaðarmál.

Upplýsingar sem ekki er óskað eftir trúnaði um kunna að verða birtar á vef skattsins.

 

Reitur 7 - Fylgigögn, m.a. sýnishorn

Valfrjáls útfylling.

Gera skal grein fyrir í þessum reit hvort lögð er fram lýsing á vörunni, bæklingar, myndir eða önnur skjöl sem skatturinn getur notað við afgreiðslu umsóknarinnar.

Merkið í viðeigandi reiti.

 

Reitur 8 - Aðrar umsóknir um bindandi álit og þegar útgefin álit

Skylt er að fylla þennan reit út.

Hér skal gera grein fyrir áður útgefnum bindandi álitum um tollflokkun til umsækjanda eða annars (t.d. frá erlendu tollyfirvaldi) varðandi samskonar eða svipaða vöru. Senda skal með umsókninni afrit af slíkum bindandi álitum.

Liggi tvö álit um tollflokkun vöru fyrir skal færa upplýsingarnar í báða hluta reitsins.

 

Reitur 9 - Bindandi álit gefið út til annarra aðila

Skylt er að fylla þennan reit út.

Ef kunnugt er um að bindandi álit um tollflokkun hafi verið gefin út til annarra vegna sams konar eða svipaðrar vöru skal gerð grein fyrir því í þessum reit. Senda skal með umsókninni afrit af slíkum bindandi álitum.

 

Reitur 10 - Dagsetning og undirskrift umsækjanda

Skylt er að fylla þennan reit út.

Gangið úr skugga um að umsóknin sé rétt útfyllt, dagsett og undirrituð.

Fylgiskjöl á að númera eða tengja umsókninni á annan hátt.

Reitir A og B eru eingöngu ætlaðir til nota fyrir skattinn.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir