Hvað er tollmeðferðargjald?
Tollstjóri innheimtir ekki tollmeðferðargjald, tollskýrslugjald, umsýslugjald eða önnur gjöld með svipuðum heitum, sem fram koma á reikningum frá tollmiðlurum eða farmflytjendum. Þessi gjöld eru fyrir veitta þjónustu þessara fyrirtækja.
Þessi þjónustugjöld eru innlend gjöld og leggjast því ekki innflutningsgjöld (aðflutningsgjöld) á þau. Virðisaukaskattur leggst hinsvegar á þjónustugjöldin eins og aðra þjónustu sem veitt er á Íslandi.
Í flestum tilfellum þarf einstaklingur, sem flytur vöru til landsins til einkanota ekki að greiða Tollstjóra neitt fyrir veitta þjónustu.
Hinsvegar innheimtir Tollstjóri í vissum tilfellum gjald fyrir veitta þjónustu til dæmis fyrir tollafgreiðslu skipa og flugvéla. Heimild til gjaldtökunnar er í 195. grein tollalaga, en þar kemur meðal annars fram að gjaldtaka embættisins skuli miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.