Hvað er tollskrá?

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Hvað er tollskrá?

Íslenska tollskráin og breytingar á henni eru samþykktar frá Alþingi, sem viðauki I við tollalög, tollskráin hefur því lagalegt gildi.

Tollskráin var upprunalega gefin út sem handbók á pappír, en er nú smátt og smátt að færast yfir í rafrænt form. Íslenska tollskráin er aðgengileg á vef Tollstjóra bæði sem PDF skjöl og í gagnagrunni.

Með því að beita túlkunarreglum tollskrár er hægt að finna rétt tollskrárnúmer í skránni fyrir hvaða vöru sem er. Að baki hvers tollskrárnúmers í skránni liggja upplýsingar um gjöld sem greiða þarf af vöru og einnig upplýsingar um bönn, leyfi, vottorð eða aðra skilmála sem þarf að uppfylla áður en tollafgreiðsla getur farið fram. Allar vörur, sem fluttar eru til eða frá landinu þarf að tollflokka rétt.

Tollskráin er byggð á samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskrá Tollasamvinnuráðsins en hún var tekin upp í alþjóðlegum viðskiptum samkvæmt alþjóðlegum samningi sem gerður var að frumkvæði ráðsins 14. júní 1983. Samningurinn tók gildi gagnvart samningsaðilum 1. janúar 1988 og var Ísland meðal stofnaðila hans. Tilgangurinn með samningnum er að auðvelda alþjóðleg viðskipti og söfnun, samanburð og greiningu tölfræðilegra upplýsinga að því er þau varðar. Að baki samningsgerðinni bjó jafnframt krafa ríkisstjórna um nákvæma sundurgreiningu vara vegna tolla og skýrslugerðar og mikilvægi nákvæmra og sambærilegra upplýsinga vegna alþjóðlegrar samningagerðar í viðskiptum.

Tollskrá

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir