Hvað þarf að hafa í huga þegar verslað er á netinu?
Þessi síða fjallar um helstu atriði sem gott er fyrir einstaklinga að hafa í huga þegar vörur eru pantaðar frá útlöndum hvort sem það er í gegnum netið eða með öðrum hætti.
Allar vörur sem fluttar eru til landsins eru tollskyldar án tillits til verðmætis nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum og reglugerðum, svo sem vegna tollfríðinda tækifærisgjafa eða ferðamanna.
Þetta þýðir að allar vörur eru tollskyldar hvort sem verðmæti þeirra er $1 eða $1.000. Ekki skiptir heldur máli hvernig vara var flutt til landsins. Hér má nefna innflutning með póstsendingu, hraðsendingu, almennri frakt eða farangur ferðamanna sem uppfyllir ekki skilyrði tollfríðinda eða þau fullnýtt.
Innflytjandi ber ábyrgð á réttum upplýsingum um vörusendingu og greiðslu aðflutningsgjalda.
Áður en pantað er:
- Varan kostar meira komin til Íslands en verðmerking seljanda segir til um.
- Stundum eru uppgefin verð án flutnings- og pökkunarkostnaðar.
- Ef um er að ræða mjög ódýra vöru er hugsanlegt að kostnaður við innflutning hennar sé hærri en verð vörunnar.
- Áður en pantað gæti borgað sig að nota þessa reiknivél til að áætla hvað varan myndi kosta með innflutningsgjöldum (aðflutningsgjöldum).
- Tollverð (CIF) = verð vörunar + flutningskostnaður + tryggingakostnaður + allur annar kostnaður sem leggst á verð vörunnar erlendis og á leið til landsins. Gjöld sem greiða þarf við innflutning reiknast af tollverði.
- Á Íslandi gæti bæst við kostnaður vegna þjónustu sem tollmiðlarar eða farmflytjendur veita t.d. vegna tollskýrslugerðar eða heimkeyrslu. Ekki eru lögð innflutningsgjöld á slíka þjónustu en hún er hinsvegar virðisaukaskattskyld.
Almenn öryggisatriði
- Kannið bakgrunn þess sem versla á við áður en kortanúmer eða aðrar persónulegar upplýsingar eru gefnar upp (hvað segja aðrir um seljandann).
- Lesið vel kaup- og afhendingarskilmála áður en ákveðið er að ganga að kaupunum.
Hvert kemur varan mín?
Það fer eftir því hvernig varan var send til landsins af þeim sem sendi vöruna. Í mörgum tilfellum sendir seljandinn þér svokallað tracking númer. Það getur þú notað til að fylgjast með sendingunni á leiðinni til landsins.
Vörur eru aldrei sendar til Skattsins.
- Vara send í pósti berst til Íslandspósts.
- Vara send með hraðsendingarfyrirtæki berst til viðkomandi fyrirtækis á Íslandi.
- Vara send með öðrum farmflytjanda t.d. skipafélagi eða flugfélagi er í höndum hans þar til þú færð hana afhenta.
Þessir aðilar hafa samband við þig þegar varan er komin til að afhenda þér vöruna eftir að tollafgreiðslu er lokið og jafnframt ef þeir þurfa á frekari upplýsingum að halda til að geta framkvæmt tollafgreiðslu t.d. ef vörureikning vantar.
Gjöld á Íslandi:
- Við tollafgreiðslu á Íslandi eru lögð á vöruna gjöld samkvæmt tollskrá.
- Þessi gjöld eru mismunandi eftir því um hvaða vöru er að ræða og í hvaða tollskrárnúmer hún flokkast.
- Gjöldin geta til dæmis verið tollar, vörugjöld, virðisaukaskattur, úrvinnslugjöld og fleira. Samnefni þessara gjalda er aðflutningsgjöld (innflutningsgjöld).
- Ef tollmiðlari sér um að tollafgreiða vöruna kann hann að taka gjald fyrir þjónustuna. Hafið samband við tollmiðlara til að fá upplýsingar um verð.
- Þegar verslað er við land sem Ísland hefur gert fríverslunarsamning við gæti tollurinn verið lægri eða jafnvel enginn, en til þess þarf innflytjandi að óska eftir fríðindameðferð og framvísa sönnun á uppruna vörunnar.
- Virðisaukaskattur sem leggst á vörur er oftast 24% nema ef um bækur, blöð, tímarit eða matvæli, önnur en sælgæti og drykkjarvörur er að ræða sem bera 11% virðisaukaskatt.
Hvað þarf að varast:
Sumar vörur er bannað að flytja til landsins samkvæmt íslenskum lögum þótt hægt sé að panta þær á netinu. Þetta á til dæmis við um dýr og plöntur, lyf til lækninga, eiturlyf og vopn.
Er hægt að skila vöru sem pöntuð er á netinu?
Oftast bjóða seljendur kaupendum upp á að geta skilað vöru sem pöntuð var á netinu.
- Ef varan er ekki sótt, eða hún er endursend vegna þess að viðtakandi hefur ekki fundist eða neitað hefur verið að taka við henni og hún endursend til þess sem sendi hana.
- Ef varan hefur verið sótt og síðan endursend ónotuð til sama aðila og hún var send frá, eru aðflutningsgjöld endurgreidd, að uppfylltum sömu skilyrðum og nefnd eru hér að ofan.
- Ef það kemur í ljós að varan er gölluð og hún er endursend ónotuð til seljanda skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af henni. Sama á við þótt galli hafi ekki komið í ljós fyrr en við notkun, enda sé hann þess eðlis að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um hann fyrr.
Athugið að ef ný vara er send í staðinn fyrir þá sem var endursend, getur þurft að greiða gjöldin aftur af nýju vörunni, jafnvel þótt sú gallaða hafi verið í ábyrgð.
Sjá nánar: undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda.
Ef frekari upplýsingar vantar hafið þá samband við þjónustufulltrúa í síma 560-0315 á afgreiðslutíma alla virka daga eða hafið samband.